Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Af hverju er ég femínisti?

Fyrir langa löngu setti ég svar inn á umræðuvef Femínistafélagsins til einhvers sem hélt því fram að jafnrétti væri náð. Þar sem umræðuþráðurinn er fallinn frá átti ég ekki von á að rekast á þetta svar aftur. Kom mér því ánægjuega á óvart að sjá það inni á malefnin.com áðan. Set það hér inn að gamni - enda er það enn í fullu gildi þó eitthvað af tölfræðinni sé ekki nákvæmlega sú sama - heldur hér um bil!

„Hmmm... sæji þig í anda halda því sama fram ef konur væru 70% þingmanna, karlmaður hefði aldrei verið bankastjóri, forsætisráðherra né biskup. Allir bankastjórar og seðlabankastjórar væru konur, enginn karl væri kvótakóngur (bara konur), karlar fengju greitt minna en konur fyrir sömu störf og þau störf sem titluð væru karlastörf væru lítt metinn og illa borguð. 1 karlmaður væri forstjóri 100 stærstu fyrirtækja landsins og karlar væru innan við 5% stjórnarmanna í fyrirtækjum skráðum á markaði, enginn karl væri þar forstjóri. Þar fyrir utan þá þætti það sem karlar gerðu lítið fréttnæmt. Fréttatímar væru yfirfullir af því sem konur eru að gera af því að það væri merkilegt en það sem karlar gerðu væru í ansi mörgum tilfellum kallað "fótboltafréttir" og ekki vert að minnast á (sbr saumaklúbbsfréttir). Helstu birtingamyndir karla væru að birtast hálfnaktir, sólbrúnir og stæltir í kynferðislegum stellingum og það sem konum finndist skemmtilegast að pæla í varðandi karla væri hversu stórt typpi þeir væru með. Karlar væru seldir svo hundruðum þúsundum skipti á milli landa í þeim tilgangi að neyða þá í vændi. Ef að karlar síðan svo mikið sem voguðu sér að setja út á þetta ástand þá væri þeim vinsamlegast bent á að þeir væru vælukjóar sem ættu bara að sjá að svona væri bara jafnrétti

Mistökin eru að læra ekki af sögunni. Skoðaðu áfanga í jafnréttisbaráttunni í samhengi við virkni kvennréttindahreyfinga og þá sérðu að hlutirnir gerast þegar virk barátta er í gangi. Það eina sem er nokkuð öruggt um að fara bara áfram er tíminn, allt annað getur ýmist farið aftur á bak, áfram eða staðið í stað. Það er engin trygging fyrir stöðugri framþróun og ef við erum ekki á vaktinni þá förum við afturábak. Get tekið sem dæmi að klámvæðingin setur okkur gífurlega mörg skref aftur á bak í jafnréttisbaráttunni.

Það er því enn nokkuð langt í land með að við náum jafnrétti - hvað þá fullkomnu jafnrétti. Árið 1926 var því haldið fram í Morgunblaðinu að á Íslandi ríkti fullkomið jafnrétti og svo hefði lengi verið. Við vitum í dag að þetta var ansi langt frá sannleikanum. Ekki gera sömu mistök og Mogginn árið 1926.“


Alltaf í boltanum

En frábært að núverandi stjórn KSÍ er aðeins að hysja upp um sig buxurnar til að jafna hlut kynjanna í boltanum. Reyndar hafa margir bent á að miklar framfarir hafi orðið í kvennaboltanum undanfarinn áratug eða svo. Já, sem betur fer en það er ekki nóg. KSÍ er algjört karlaveldi og kvennaknattspyrnunni er ekki gert nærri nógu hátt undir höfði - auk þess að allt sem fæst er fyrir tilstilli þrotlausrar baráttu. Þannig var mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar til dæmis búið að kalla forsvarsmenn KSÍ til fundar við sig eftir að fréttir bárust af mismunun í dagpeningagreiðslum til karla og kvenna. KSÍ fær styrki frá Reykjavíkurborg og þeir eru skilyrtir að ekki sé mismunað eftir kyni. 

Á heimsvísu eru "stelpurnar okkar" að standa sig betur en "strákarnir okkar". Þær eru held ég í 19. sæti á heimslistanum í kvennaboltanum á meðan þeir eru í 95. sæti, eða þar um bil. Sumir vilja meina að ástæðan fyrir áhugaleysi á kvennaboltanum sé vegna þess að þær séu ekki nógu góðar - með sömu rökum er óskiljanlegt hvers vegna einhver horfir á íslenska knattspyrnu yfir höfuð. Varla er rosalega gaman að horfa á knattspyrnu sem er 95. besta í heimi??? Nei, aðrir þættir en hæfni koma klárlega við sögu - og kyn er stór þáttur.

Það þarf að taka hressilega til í boltanum. Ég treysti Höllu Gunnars langbest til þess af þeim frambjóðendum sem fram eru komnir, enda hefur hún mikinn áhuga á fótbolta og vill að hann sé íþrótt fyrir alla. Geir er fulltrúi óbreytts ástands og Jafet kemur úr peningageiranum - er markmiðið að færa boltann enn nær því að vera big bisness og fjær því að vera íþrótt sem fólk stundar af áhuga og gleði?

Þessi afreksmannastefna sem er í gangi er skrýtin fyrir margra hluta sakir.

Fyrir það fyrsta er atkvæðisréttur á þinginu skilyrtur eftir hversu vel liðunum gengur en ekki eftir hversu marga iðkendur þau hafa. Kvennaboltinn er svo settur út í kuldann þannig að liðin í 1. deild fá sama atkvæðafjölda og liðin í neðstu deildum karlaboltans. Þar fyrir utan eru það ekki einu sinni kvennaliðin sjálf sem fá fulltrúana heldur félögin sem þær eru í svo karlar eru í meirihluta þeirra sem fara út á þeirra þingsæti. Ég hef heyrt að konur á þinginu séu teljandi á fingrum annarrar handar - og þingfulltrúar eru 125 eða þar um bil.

Annað sem er vert að hugsa um varðandi áhersluna á keppnina er að í raun eru börn sett í þá stöðu strax á mjög ungum aldri að búið er að ákveða fyrir þau vissa braut. Þetta er sambærilegt og að ætla að ákveða fyrir 7 ára barn að það eigi að verða verkfræðingur eða tannlæknir og miða allt uppeldið út frá því þar eftir. Er eitthvað eðlilegra að ákveða fyrir svona ung börn að þau eigi að verða atvinnumenn í fótbolta og miða uppeldið út frá því? 


mbl.is Stjórn KSÍ jafnar dagpeningagreiðslur til karla - og kvennalandsliðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Netorðin fimm

Einu sinni var Femínistafélagið með umræðuvef. Vonandi kemst hann einhvern tímann í gagnið aftur en sem stendur er hann bilaður. Umræðuvefurinn var opinn öllum og eins og við var að búast komu þangað alls kyns fólk - femínistar, áhugasamir einstaklingar sem vissu ekki hvað femínisti var en vildu kynna sér stefnuna, karlrembur, unglingar og þar fram eftir götum. Eðilega fórum við í nokkra snúninga varðandi hvernig við vildum sjá vefinn. Sumir komu inn með dónaskap, svívirðingar og klámlinka. Við ákváðum fjótlega að þá notendur myndum við afskrá, enda enginn tilgangur í að halda úti umræðuvettvangi fyrir fólk sem ekki sýnir lágmarksmannasiði. Hate speach og dónaskapur var sem sagt ekki velkomið á umræðuvefnum. Mismunandi skoðanir voru hins vegar velkomnar og oft urðu umræðurnar bæði heitar og fjörugar. Ekki nenntu samt allir femínistar að vera inn á því svæði og því stofnuðum við sér svæði sem eingöngu var ætlað fyrir femínista. Þessi lausn reyndist ágætlega.

Mér sýnist að með því að færa mig yfir á moggabloggið gæti ég þurft að fara í sams konar pælingar. Ég vil geta haft athugasemdarkerfið opið því mér finnst of mikið maus að skrá inn notendanafn og lykilorð, opna síðan póstinn minn og staðfesta athugasemdina. Skrifa færri athugasemdir en þegar þetta er opið. Hins vegar er viðbúið að and-femínistum finnist sniðugt að ramba hingað hinn með látum - og gleyma mannasiðunum sem gilda í mannheimum. Mér leiðist slíkt og hef ákveðið að marka þá stefnu að ignora slík komment í framtíðinni. Rökræður og skiptar skoðanir er fínt - en orðalagið skiptir máli. Fyrir þá sem eru í vafa um hvað ég er að tala um þá bendi ég á netsíðu SAFT um Netorðin fimm.


Vildi ég gæti kosið

Frábærar fréttir að loksins eru komin merki um að Hillary ætlar í forsetaframboð. Það er löngu tímabært að kona verði forseti þessa wanna-be heimsveldis. Kannski lýðræðið aukist í kjölfarið :) Það er aldrei að vita. Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni þar sem nú geta demókratar ekki aðeins valið á milli hvítra karla og konu heldur stendur valið á milli konu, blökkumanns og hvítra karla... Hef stundum heyrt því fleygt að Bandaríkin séu hugsanlega tilbúin til að fá blökkumann sem forseta en ekki konu. Sorglegt ef satt er því auðvitað á embættið að vera opið fólki af báðum kynjum, öllum kynþáttum, o.s.frv. 

Jafnréttisbaráttan í Bandaríkjunum hófst þegar 2 kjarnakonur, þær Elisabeth Cady Stanton og Lucretia Mott fóru til Bretlands til að tala máli blökkumanna á fundi andstæðinga þrælahalds. Þegar þær voru komnar til Bretlands fengu þær ekki að tala á ráðstefnunni af því að þær voru konur. Þar með rann upp fyrir þeim ljós að eitthvað þyrfti að gera í málefnum kvenna. Þetta var árið 1840. Átta árum síðar var haldinn fundur í Seneca Falls sem sendi frá sér Declaration of Sentiments”, sem innihélt kröfur um mannréttindi konum til handa.

Réttindabarátta kvenna og minnihlutahópa er samofin á mörgum stigum, eins og þetta dæmi sýnir.


mbl.is Hillary Clinton hyggur á forsetaframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhugsuð fjárfesting

Ég fjárfesti í Mannlífi í dag - og gerði þar með stóra undantekningu. Ég vil ekki versla við fyrirtæki sem gefur út klámblað... Ákvað samt að kaupa Mannlíf í þetta skipti því í blaðinu er viðtal við eina stórkostlegustu konu á Íslandi, hana Rúnu á Stígamótum. Eins er viðtal við Örnu Schram í blaðinu og fleira áhugavert og þess vegna ákvað ég að það væri í lagi að gera undantekningu á boycottinu mínu. Taldi sjálfri mér trú um að það væri þess virði að eiga viðtöl við svona konur, no matter what. Ég skipti þó snarlega um skoðun þegar ég fletti í gegnum blaðið. Á blaðsíðunni á undan viðtalinu við Rúnu er auglýsing frá súlustað. Þær stöllur á Stígamótum hafa verið ötular í baráttunni gegn súlustöðum og bent á tenginguna á þessum stöðum og kynferðisofbeldis. Mannlíf vogar sér síðan, ekki einungis að hafa auglýsingu í sama blaði og viðtalið, heldur er auglýsingin á sama blaði og viðtalið við Rúnu byrjar. Ég hefði mátt vita að dómgreindin hjá þeim sem gefa út klámblað er ekki upp á marga fiska!

Viðtalið við Rúnu er hins vegar margfalt þess virði að lesa. Mæli bara með að þið fáið blaðið lánað einhvers staðar frekar en að kaupa það ;) Sérlega hafði ég gaman af sögunni um Sóley sem átti að greina svohljóðandi setningu í skólanum: Konan er útivinnandi. Konan vanrækir heimilið sitt.  


Í tilefni dagsins

Jæja. Eftir nokkurra vikna sálarstríð um hvort ég ætti að færa mig yfir á moggabloggið dreif ég loksins í því. Nenni samt ekki að færa allar eldri færslur yfir, sé engan tilgang í því en hef link á það undir tenglum. Hér er samt nýjasta færslan af gamla blogginu... Má til með að minna á að í fyrra þegar kynþokkafyllsta konan var valin lenti Solla stirða í 8. sæti - og hún er 8 ára í þáttunum um Latabæ!

Í tilefni dagsins:

Óska öllum bóndum til hamingju með daginn! Nota jafnframt tækifærið og lýsi yfir frati á Rás 2 fyrir val á kynþokkafyllsta karlmanninum. Ég hef oft kvartað yfir þessu áður og vona að Rás 2 hætti sem fyrst að skemma bóndadaginn og konudaginn með þessari vitleysu.

Hvaða merkingu hefur þetta val og af hverju er ríkisfjölmiðill að standa fyrir svona kosningu? Öðrum þræðinum er þessi dagur hlaðinn rómantískum blæ þar sem gert er út á að konur geri eitthvað sætt fyrir maka sína. Ég velti fyrir mér hversu mörgum karlmönnum finnst það sætt ef konan þeirra tekur á móti þeim eftir langan vinnudag og segir að hún hafi nú mikið velt fyrir sér allan daginn hvaða karlmaður henni þætti kynþokkafyllstur og loks hefði hún komist að þeirri niðurstöðu að það væri Gísli Örn, eða hver það er sem er flavor of the day, svo hún hefði hringt í Rás 2 og kosið hann... Smelli svo á karlinn léttum kossi og rétti honum blómvönd eða súkkulaðikassa! Jamm allt blússandi í rómantík - sérstaklega þegar haft er í huga hvað það þýðir að vera kynþokkafullur. Til fullt af klúrum orðum til að lýsa því (sem ég ætla ekki að telja upp því ég er svo siðprúð... ) en orðið hefur kynferðislega merkingu. Þessi árátta að meta fólk út frá útliti, ríðileika og þess háttar smellpassar inn í klámvæðinguna, hlutgervinguna, stjörnudýrkunina... Væri ekki ráð fyrir Rás 2 að láta af þessum sið og fókusa meira á rómantíkina, ástina og virðinguna í tilefni dagsins? Ég væri sátt við það.
mbl.is Gísli Örn valinn kynþokkafyllsti karlmaðurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 332484

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband