Hvað er klám?

Einhver spurði hvað er klám? Var að fletta í gömlu prófi sem ég tók í inngangi í kynjafræði og fann þetta svar: 

Hvað er klám, hvernig lýsir það sér og hvaða rök setja fræðimenn fram með og á móti því að leyfa eða banna klám? Hver er afstaða feminsta til kláms?

Hvað er klám?

Til eru margar skilgreiningar á klámi en sú sem er hvað mest notuð er skilgreining Diana Russell. Hún hljóðar á eftirfarandi hátt:

“Klám tengir kynlíf og/eða kynfæri við niðurlægingu eða misnotkun þannig að það virðist afsaka, styðja eða ýta undir þess konar hegðun.

Erótík er kynferðislega örvandi efni sem er laust við kynjamismunun, kynþáttafordóma og fordóma gegn samkynhneigðum og sett þannig fram að virðing er borin fyrir öllum þeim manneskjum og dýrum sem sýnd eru”.

Fólk hefur löngum deilt um hvað er klám og hvað er erótík. Fræg eru orð bankarísks dómara sem sagði eitthvað á þá leið að hann gæti kannski ekki sagt hvað klám væri en hann þekkti það þegar hann sæi það. Klám á sér margar birtingarmyndir. Það sem þeir femínistar sem eru á móti klámi virðast vera sammála um er að klám feli í sér niðurlægingu fyrir konur, að í klámi séu konur hlutgerðar, konur látnar líta út fyrir að njóta kynlífsathafna sem þær njóta í raun og veru ekki, að í klámi sé ofbeldi gegn konum gert “sexý.” Meirihluti kláms er framleitt fyrir gagnkynhneigða karla. Í klámi birtast völd karla yfir konum, allavega er það látið líta út þannig. Karlinn er ávallt við stjórnvölinn og konan/konurnar tilbúnar til að gera allt sem hann vill. Í klámi er sjónarhóll karlsins alsráðandi (the male gaze). Í klámi birtast einnig oft ýktar myndbirtingar af konum. Algengt er að myndir af konum sé breytt (airbrushed), þær eru með sítt hár, mikið málaðar, langar, málaðar neglur, mjög grannar og með stór brjóst, iðullega sílíkonbrjóst.

Í bók sinni Agains Pornography, The Evidence of Harm, kafla What is Pornography, lýsir Russell niðurstöðum rannsókna sem leiddu í ljós áhrif kláms á konur. Efninu var skipt í 3 flokka:

a)       ofbeldisfullt klám

b)       klám án ofbeldis (en bar vott um karlrembu og ómennsku)

c)       erótískt efni (engin karlremba og ekkert ofbeldi)

Í ljós kom að fyrstu tveir flokkarnir höfðu neikvæð áhrif á líðan kvenna en þriðji flokkurinn jákvæð áhrif.

Hvaða rök setja fræðimenn með og á móti því að banna klám?

Það er ekki nekt og kynlíf sem andstæðingar kláms eru á móti heldur hvernig konur eru sýndar og vegna þeirra áhrifa sem klám hefur á viðhorf karla til kvenna. Russell heldur því fram að klám beinlínis leiði til ofbeldis gegn konum. Hún segir að það séu jafn sterkar sannanir fyrir því að klám leiði til nauðgana eins og að reykingar valdi lungnakrabba (Making the Harm Visible, http://www.echonyc.com/~onissues/russell.htm). Raðmorðinginn Ted Bundy lýsti því hvernig klám leiddi til þess að hann tók upp á því að drepa konur. Hann segist hafa byrjað að horfa á klám og smátt og smátt hafi hann sóst í ofbeldisfyllra efni. Það kom að því að það að horfa á klám var ekki nóg og hann fór að velta fyrir sér hvernig væri að framkvæma ofbeldið í alvörunni. Á meðan sumir telja þetta vera sönnun þess að klám beinlínis setji konur í hættu þá benda önnur sjónarmið á að það gæti líka verið að klám væri notað sem afsökun fyrir að fremja glæpi, þ.e. að skuldinni væri skellt á klámið en ekki sé víst að það hafi leitt til glæpsins. Það eru til frásagnir ofbeldismanna, kvenna og barna sem hafa lýst því hvernig ofbeldismenn hafa sýnt þeim klámfengið efni og síðan framkvæmt það sem var sýnt. T.d. er frásögn frá manni sem sýndi drengjum barnaklám þar sem fullorðin karl var í kynlífsathöfnum með ungum drengjum. Hann notaði þetta efni til að nálgast drengina, auka á sektarkennd þeirra og fá þá til að halda að athafnir hans væru eðlilegar, að aðrir gerðu þetta líka (Pornography: Denegration of ‘Woman’ or Exploration of Fantasy and Transgression?).

Því er líka haldið fram að klám sé notað sem valdatæki gegn konum. Þannig birtist þrá/þörf karla til að drottna yfir konum í klámi. Einnig er því haldið fram að karlar séu í raun hræddir við konur og völd þeirra. Klámið sé notað til að strípa konur niður í kjötið eitt, hlutgerðar og afmanneskjaðar til að sýna að konur séu ekki ógnandi. Í klámi er karlinn við stjórnvölinn og í klámi klikkar karlinn ekki, hann hefur ómanneskjulegt úthald og það virðist vera sama hvað hann gerir við konur – þær njóta þess alltaf. Í klámi er karlinn því hinn fullkomni elskhugi, ef svo má að orði komast. Þetta getur átt að höfða til hræðslu karla um að standa sig ekki í raunveruleikanum, það getur líka gengt því hlutverki að ala á óánægju karla með eigin frammistöðu og gert það að verkum að það er auðveldara fyrir þá að flýja á vit klámsins en að horfast í augu við raunveruleikann. Í grein sem birt var í The Guardian og nefnist Men and Porn er fjallað um áhrif kláms á karla. Það er talað um að karlar sem horfa mikið á klám geti lent í því að eiga í erfiðleikum með að tengjast konum tilfinningaböndum, þeir haldi að konur séu alltaf til í tuskið og að kynlíf snúist um hvað karlar geti gert við konur. Þetta geti síðan tekið karla langan tíma að aflæra þegar þeir átta sig á sannleikanum. Klámið hefur djúpstæð áhrif á færni þeirra í samböndum við konur. Klám getur verið ávanabindandi og klámfengnar ímyndir af konum geta orðið ávanabindandi þannig að karlar verða ófærir um að stunda kynlif nema sjá fyrir sér ímyndir úr klámi. Því fylgir síðan oft sektarkennd og tómleiki. Í greininni í Guardina er vísað í ummæli sem Bill Margold, klámmyndaleikari sagði í viðtali. Þar segir hann að “…ástæðan fyrir því að hann sé í klámbransanum sé að uppfylla þrá karlmanna sem í kæra sig ekki mikið um konur og vilja sjá karla í klámbransanum ná sér niður á konum sem þeir gátu ekki fengið í uppvexti sínum. Svo að við fáum það yfir andlit konu eða misþyrmum henni kynferðislega: Við erum að hefna okkar fyrir óuppfyllta drauma”.

Áhyggjur margra af áhrifum kláms tengjast áhrifum kláms sem kennslutækis barna og unglinga um kynlíf og viðhorf kynjanna til hvors annars. Í greininni Pornography: Denigration of ‘Woman’ or Exploration of Fantasy and Transgression? er vitnað í Susan Griffin sem heldur því fram að klám hlutgeri konur, sýni konur eins og hvern annan dauðan hlut án sálar sem aðeins sé hægt að elska líkamlega.

Önnur stór ástæða fyrir andstöðu við klám er aðstæður fólks sem situr fyrir/leikur í klámi. Þegar klám er ofbeldisfullt, t.d. sýnir konu sem er með lim í öllum götum (leggöngum, endaþarmi og munni), þá sé verið að beita þá konu raunverulegu ofbeldi. Linda Lovelace, konan sem lék aðalhlutverkið í frægustu klámmynd allra tíma, Deap Throat, skrifaði bók þar sem hún sagði frá því að hún hefði verið beitt miklu ofbeldi af hálfu manns síns, hann hefði neytt hana í vændi og til að leika í klámmyndum. Hann hefði nauðgað henni, ógnað henni með byssu og beitt hana alls kyns hræðilegu ofbeldi. Refsingin sem vofði yfir ef hún ekki gerði eins og henni var sagt gerði það að verkum að hún tók þátt í myndinni.

Fræðimenn sem eru fylgjandi klámi halda því fram að það að banna klám sé ritskoðun og því eigi klám að vera leyfilegt. Önnur rök sem haldið er fram er að klám leiði ekki til ofbeldis, karlar geti jafnvel fengið útrás fyrir ofbeldisþörf með því að neyta kláms. Því er einnig haldið fram að ástæðan fyrir því að konur eru oft á móti klámi sé vegna þess að kynhvöt kvenna hefur verið bæld síðustu aldir. Konur séu aldar upp til að vera “góðar stelpur” og að þess vegna trúi þær að klám sé slæmt. Þessu til stuðnings er bent á klám sem framleitt hefur verið af konum fyrir konur. Bent er á dæmi um lesbíuklám og að þar komi oft sömu hvatir fram og í klámi sem framleitt er fyrir gagnkynhneigða karla. Þar sé að finna drottnunarklám og jafnvel klám þar sem samkynhneigðir karlar og samkynhneigðar konur séu saman. Þetta sjónarmið segir að klám sé útrás fyrir fantasíur og að konur eigi að vera óhræddar við að kanna kynhvöt sína í gegnum klám. Þeir fræðimenn sem aðhyllast þetta sjónarmið segja þó ekki endilega að allt klám eigi að vera leyfilegt heldur að fólk geti sammælst um að banna ofbeldisfullt klám, barnaklám og dýraklám. Í greininni eru lýsingar á lesbíuklámi (fyrir lesbíur ekki gagnkynhneigða karla sem líta á það sem forleik) þar sem er drottnun eða ofbeldi. Mín skoðun á þessum lýsingum er að sumar þeirra eru ekki til þess fallnar að vekja betri viðbrögð heldur en lýst er sem ástæðum fyrir því að vera á móti klámi.

Hver er afstaða femínista til kláms?

Femínistar eru ekki allir sammála um klám. Á meðan sumir femínistar telja að klám leiði til ofbeldis gegn konum og viðhaldi ójafnrétti í þjóðfélaginu þá eru aðrir femínistar sem eru hlynntir klámi og hvetja konur til að neyta kláms sem part af kynfrelsi. Margir femínistar eru þó sammála um að hvort sem klám sé leyfilegt eða ekki þá vaði nú yfir okkur klámvæðing sem beri að stöðva. Áhersla kvennabaráttu er á það að útrýma klámvæðingunni. Gefa fólki raunverulegt val þannig að hægt sé að velja sig frá klámi. Áhrif klámvæðingarinnar eru orðin það sýnileg í samfélaginu að margir sem ekki kalla sig femínista hafa verulegar áhyggjur. Áhrifa klámvæðingarinnar er farið að gæta hjá börnum og þol samfélagsins virðist alltaf verða meira og meira. Ég held að samfélagið í heild upplifi sig valdalaust gagnvart áhrifum frá klámvæðingunni. Femínistar telja klámvæðinguna vera aðför að kynfrelsi kvenna þar sem konur eru sviptar þeim möguleika að stunda kynlíf á eigin forsendum.

Sumir róttækir femínistar eru á því að konur geti ekki verið í kynferðislegu sambandi við karl án þess að vera kúgaðar. Bara með því að eiga samfarir með karl þýði undirgefni. Konur eru því hvattar til að láta karla eiga sig og vera annaðhvort einar eða í sambandi við aðarar konur. Þetta er full róttækt sjónarmið fyrir mína parta þó svo að ég telji að slík afstaða geti skilað mjög skjótum árangri ef samstaða næst um aðgerðir…!

Mín afstaða til kláms er sú að ég er sannfærð um að það sé skaðlegt. Mér finnst grundvallaratriði að klám sé ekki viðurkennt sem partur af neyslu. Forgangsverkefni finnst mér vera að sporna við klámvæðingunni og síðan gegn kláminu sjálfu. Það getur vel verið að hægt sé að framleiða kynlífstengt efni sem ekki hlutgerir manneskjuna en sem “virkar” fyrir bæði kynin (eða fyrir samkynhneigða, eftir því sem við á). Mín skoðun er þó sú að framleiðsla á slíku efni eigi að vera í höndum fagfólks – ekki fagfólks í klámiðnaðinum heldur fagfólks í kynjafræðum, sálfræði, samskiptum kynjanna. Aðilar sem geta framleitt kynlífstengt efni þar sem manneskjan fær að njóta sín og virðing er í hávegum höfð, bæði gagnvart þeim sem að koma og gagnvart kynlífinu sjálfu. Stóra spurningin er hvort að slíkt efni sé ekki nú þegar til í listum en að það hreinlega sé ekki að virka.

Mér finnst það ekki vera sjálfkrafa gæðastimpill á klám þó að það sé framleitt af konum og styð því ekki það sjónarmið að konur eigi bara að skella sér í framleiðslu. Konur eru jafn ólíkar og þær eru margar, þeirra siðferðiskennd er ekkert betri en karla og þær hafa sömu hvatir og karlar. Kynið gefur því ekki til kynna að konur séu sjálfkrafa hæfari til að framleiða klám.

Ég er á því að kynlíf sé það stór partur af lífi fólks að það beri að umgangast það af virðingu. Kynlíf á ekki að nota sem afsökun fyrir útrás á bældum hvötum. Fólk sem starfar í kynlífsiðnaðinum er í raun svipt því að eiga kost á nánum samskiptum við einn aðila í gegnum kynlíf. Kynlífsiðnaðurinn þykir líka ekki eftirsóttur starfsvettvangur og ljóst er að margir starfa þar af nauðung eða út af mansali. Slík er að sjálfsögðu ólíðanlegt og eitthvað verður undan að láta. Annaðhvort þarf að samþykkja kynlífsiðnaðinn sem sjálfsagðan hlut, vega hann til vegs og virðingar þannig að fólk sjái það sem ákjósanlegan starfsvettvang fyrir börn sín þegar þau verða stór, maka, foreldra og aðra ættingja eða þá að það þarf að draga úr eftirspurn. Mér finnst síðari kosturinn vænlegri.

Ég held þó að femínistar og kvennahreyfingar eigi eftir að ræða og rannsaka kynhegðun, kynhvöt og kynlíf mun betur. Kynlíf á ekki að vera tabú í þjóðfélaginu, kynfræðsla þarf að vera mun öflugri en hún er í dag þannig að unglingar læri um kynlíf af fullorðna fólkinu en ekki í gegnum klám. Kynfræðsla á ekki að samanstanda eingöngu af upplýsingum um kynsjúkdóma, getnvaðarvarnir og samfarir. Kynfræðsla þarf að taka á öllum þáttum – tilfinningum, hvötum, ást, o.s.frv. Kynfræðsla þarf einnig að kenna unglingum um klám, áhrif þess og til hvaða hvata er verið að höfða. Kenna þarf unglingum að klám og kynlíf eru tveir aðskildir hlutir.

Þrátt fyrir að ein staðalímynd af femínista segi að femínisti sé kynköld kona þá er ég á því að femínisminn hafi mun opnari, víðsýnni og fordómalausari afstöðu til kynlífs heldur en flest önnur hugmyndafræði. Femínisminn berst fyrir kynfrelsi manneskjunnar, réttinum til að stunda kynlíf á eigin forsendum. Femínisminn styður samkynhneigða í sinni réttindabaráttu, bæði til kynlífs, giftingar, barneigna og til að sýna ástúð á almannafæri. Femínisminn viðurkennir mörg, mismunandi fjölskylduform og lífsstíl. Þannig er ekki settur þrýstingur á fólk að ganga í hjónaband eða stunda eingöngu kynlíf innan hjónabands. Mörkin sem femínisminn setur eru þau að virðing, jafnrétti, jafnræði og sjálfræði eigi að einkenna samskipti fólks. Andstaða femínista við klám er því ekki byggð á þröngsýni eða andúð á kynlífi heldur á þeirri kúgun sem klám felur í sér og viðheldur í samfélaginu.

Breytt 28. feb 2007: Setti inn betri þýðingu á skilgreiningu Diana Russell + lét skilgr. á erótík fljóta með... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gamall nöldurseggur

Góð grein hjá þér

Mér finnst rökin á móti vera mun kraftmeiri en rökin með klámvæðingu. Mér finnst á undanförnu að umburðalyndi fólks gagnvart ýmsu sem við viljum ekki hafa í kringum okkur sé orðið allt of mikið. Málið er bara það að enginn vill vera fordómafullur. Allir þurfa að vera svo opnir og tilbúnir reiðubúnir að viðurkenna öll frávik frá norminu sem eðlileg. Því að víðsýni er inn. Hommar eru komnir til að vera og vilja meira að segja meina að 10 hver sé samkynhneigður. Allar gerðir kynlífsæfinga eru til fyrirmyndar og ungt fólk er illa þjakað af frammistöðukvíða og æfingarleysi. Í Noregi tíðkast það, a.m.k. svo að vitað sé að unglingar æfi sig með vinum sínum til að valda ekki vonbrigðum þegar til kastanna kemur. Klámið er aðgengilegt og algerlega óritskoðað. Þar má finna hinar ýmsu æfingar og prófa sig svo áfram.

Ég spyr. Hvar vilja menn draga mörkin?

Í Danmörku vilja menn ekki banna kynlíf með dýrum og íslenski hesturinn þykir afar heppilegur til reiðar vegna smæðar sinnar. Hvern eru danir að verja með því að gera ekki svo ógeðfellt athæfi refsivert, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir?

Er ekki mál til komið að við endurskoðum hvað má teljast eðlilegt og leyfum okkur að fordæma það sem ekki er í boði? Ég bara spyr.

Gamall nöldurseggur, 3.2.2007 kl. 19:55

2 Smámynd: halkatla

flott grein og mikil lesning

ég hef svo margar og miklar skoðanir á klámi, að ég held að þær rúmist ekki sem athugasemd, en allavega, þetta var áhugavert 

halkatla, 4.2.2007 kl. 11:14

3 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

Svo er auðvitað spurning hvort við getum ekki bara kallað þetta allt saman "List" hugsanlega "Gjörning"...... þegar stelpan í Listaháskólanum fékk 1-2 stráka til að pissa á sig uppá sviði.... Var það klám ?.... List ?.....  hvar eru mörkin í þessum blessaða heimi..... getur verið að þessari stelpu í Listaháskólanum hafi verið ógnað með ofbeldi ef hún myndi ekki samþykkja að láta pissa á sig....eða var hún samþykk og fannst þetta hið besta mál ?    .....  Getur það verið að einhverjar konur velji þetta... og aðrar velji þetta ekki ?.... er öllum konum í klámi og "Listaháskóla-Pissu-Klámi" ógnað með ofbeldi eða líkamsmeiðingum taki þær ekki þátt ?

Ingólfur Þór Guðmundsson, 4.2.2007 kl. 15:35

4 Smámynd: Gunnlaugur Þór Briem

Þessi skilgreining virðist eitthvað gölluð:

efni sem sameinar kynlíf og/eða sýnir afhjúpuð kynfæri og misþyrmingu eða lítilsvirðingu sem virðist styðja, láta viðgangast eða stuðla að slíkri hegðun

Það er ekki hægt að „sameina X og/eða Y“ ... það er hægt að „hafa eiginleikann X og/eða eiginleikann Y“ en ekki „sameina“ annað „og/eða“ hitt.

Ég er ekki bara að toga í hár, mér finnst þetta gera skilgreininguna svo óskýra að það mætti eins henda henni og reyna aftur. Ef t.d. kynlíf er sýnt, en jafnframt sýnd gagnkvæm virðing og ástúð hlutaðeigenda ... er það þá klám? Mér er ekki einu sinni ljóst hvort þessi skilgreining segir já eða nei! (Þér er það líklega ljóst, en þá vegna þess að þú veist hvað þú áttir við, ekki vegna þess að skilgreiningin sé skýr. Er það rétt til getið?)

Ég hafði uppi á þessari skilgreiningu á frummálinu og hún virðist skýrari:

material that combines sex and/or the exposure of genitals with abuse or degradation in a manner that appears to endorse, condone, or encourage such behavior.

Hér virðist X vera „combines sex and/or the exposure of genitals“ og Y „abuse or degradation ...“ og trobbúlið kom til af því að „combine X with Y“ útleggst sem „sameina X og Y“ og þetta „og“ ruglar allt. Svo að skýrari þýðing (og jafnframt skilgreining sem mér finnst vit í) er:

efni sem sameinar annars vegar kynlíf og/eða afhjúpuð kynfæri og hins vegar misþyrmingu eða lítilsvirðingu sem virðist styðja, láta viðgangast eða stuðla að slíkri hegðun

Nær þetta ekki betur því sem Diana Russell meinti?

(Hr. Smásmuga hefur talað! :) )

Gunnlaugur Þór Briem, 4.2.2007 kl. 15:38

5 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Hvar værum við án smásmugulegra athuganna... :) Þýðingin mín í þessu tiltekna prófi er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Seinna fann ég almennilega þýðingu á skilgreiningu Russell. Hún er hér - og líka skilgreining hennar á erótík:

“Klám tengir kynlíf og/eða kynfæri við niðurlægingu eða misnotkun þannig að það virðist afsaka, styðja eða ýta undir þess konar hegðun.

Erótík er kynferðislega örvandi efni sem er laust við kynjamismunun, kynþáttafordóma og fordóma gegn samkynhneigðum og sett þannig fram að virðing er borin fyrir öllum þeim manneskjum og dýrum sem sýnd eru”.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 4.2.2007 kl. 15:52

6 Smámynd: Fannar frá Rifi

Það er svo rosalega gott að geta kennt einhverju öðru en manni sjálfum um eigin bresti. Benda á klám sem orsakavaldur á því að maður hafi nauðgað og drepið. Benda á tölvu leiki sem orsök fyrir líkamsmeiðingum. 

Bull. Siðblinda er í einstaklingunum. Þeir eru ábyrgir gjörða sinna. allt annað er rugl bull og kjaftæði og hreyn lýgi. Ef banna ætti klám verðum við ekki að ritskoða allar bækur? banna allar klám fengnar lýsingar í öllum ritverkum? Og svona til öryggis dópa alla upp svo þeir hugsi ekki neina slæma hugsun.

Sýni ekki nær allar klámmyndir að mynsta kosti tvo aðila sem vilja vera með hvor öðrum? Á að banna klám því kona hefur ekki rétt á því að sýna eiginn líka og vera stolt af honum?

Ritskoðun og frelsis skerðing er aldrei rétta leiðin.

1 spurning. Kona á að hafa frelsi til þess að geta gert allt það sem hún vill til jafns á við karl.

Rétt? enn ekki ef það felur í sér klám því aðrar konur vilja ekki að þér séu að stunda vinnu sem þeim fellur ekki persónulega við.  Er þetta ekki eins og ég myndi berjast fyrir því að allri notkun á gervisykri yrði bönnuð því mér líkar ekki við það efni og tel það hættulegt. á mitt álit að ráða örlögum annara?

Fannar frá Rifi, 4.2.2007 kl. 18:08

7 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Álit og raunveruleiki eru 2 ólíkir hlutir... Það hefur verið marg sýnt fram á skaðsemi kláms. En skil vel að þú skulir verja það - aðgangur að líkömum kvenna er einn af þeim "réttum" sem of margir karlmenn telja sig eiga. 

Svo er það misskilningur að femínistar séu að berjast fyrir að klám sé bannað. Klám er nú þegar bannað skv íslenskum hegningarlögum (210. gr). Þeim lögum er reyndar ekki framfylgt nema að einhverju leyti varðandi barnaklám. Umræðan um skaðsemi kláms er hins vegar töluverð og vonandi varpar þetta svar við prófspurningu sýn á hvers vegna margir - bæði konur og karlar - eru á móti klámi.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 4.2.2007 kl. 19:00

8 identicon

Fannar,

 ég fæ einhvern veginn á tilfinninguna að þú hafir ekki lesið greinina, allavega ekki nema með fyrirfram ákveðnum skoðunum um innihaldið.  Ekki allir sem reykja fá krabbamein en þeir eru að setja sig í áhættuhóp.  Ég skil ekki af hverju þú afskrifar að miðlar í dag hafi áhrif á þig.  Ég heyrði fréttir af því fyrir nokkru að einhver bíómynd um kappakstur hafi aukið traffík inn á bílaverkstæði sem sjá um að auka kraft í bílvélum, í það minnsta tengdu bílaverkstæðisstarfsfólk þessa aukningu við myndina.  Dæmin eru að sjálfsögðu fleiri, en fyrir mitt leyti trúi ég að miðlar og efni þeirra hafi áhrif á okkur (annars væru varla til auglýsingar).  Á sama hátt hlýt ég að áætla að klám og efni þess hafi áhrif.  Þess vegna verðum við að greina hvað felst í klámi.  Varðandi siðblindu þá er alveg hægt að yfirfæra siðblindu á hópa og samfélagslega hegðun.  Vísa í seinni heimstyrjöldina í þessu tilliti og svo hegðun sumra stórfyrirtækja (en. corporates).

gretar (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 19:08

9 Smámynd: Fannar frá Rifi

Þá er það spurning í samfélagi okkar að við viðurkennum að hér viljum við ekki hafa algjört frelsi. Þið hljótið að geta verið sammála því að til þess að banna klám verðum við að ganga á frelsi vissra einstaklinga. Það er frelsis skerðing.  Þessi frelsis skerðing er þá réttlætanleg með því að vísa í að viðkomandi hlutur, í þessu tilviki klám, er hættulegt samfélaginu. rétt ekki satt?

En er þar við látið sitja? Verður þetta ekki eins og snjóbolti sem mun vefja utan um sig og stækka og bæta á sig fleyri málum. ofbeldi og klámi í tölvuleikjum, sjónvarpi, útvarpi, bókum og svo framvegis.

Væri besta leiðinn ekki að ráðast að rótum vandans sem felst í uppeldi barna okkar og að foreldrar ásamt yfirvöldum uppfræði börn á heimilum og í skólum? Því ég spyr hvort klámið sé afleiðing þess ofbeldis sem beit er og að þar sé verið að fylla upp í þarfir þeirra sem vilja kaupa ofbeldisfullt klám sem niðurlægir konur. sem myndi gera klámið að afleiðingu en ekki orsök.

Verðum við ekki líka að spyrja okkur hvort að nauðganir eigi sér dýpri rætur heldur en bara í klámmyndum. ég vek athygli á þessu þar sem forfeður okkar komu við á Bretlands eyjum og tók sér þar konur. Þ.a.e.s. þeir nauðguðu þeim og brytjuðu niður feður og eiginmenn þeirra og tóku síðan með sér hingað. Ég er ekki að segja að þetta sé eitthvað erfðafræðilegt og er alsekki að réttlæta nauðganir. af og frá. Heldur er ég að reyna að benda á að ábyrgðin liggur oft heima fyrir. 

Hefur ekki verið sýnt fram á það að nauðganir og misþyrmingar eru oftast framdar af þeim sem hafa orðið sjálfir fyrir þeim? þannig helst ákveðin vídahringur sem verður ekki stoppaður nema með miklu erfiði og ákveðnu samfélagslegu átaki. Átaki þar sem hver og einn tekur á sig ábyrgð fyrir sér og börnum sínum og elur þau vel upp.

Fannar frá Rifi, 4.2.2007 kl. 22:07

10 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Þó svo að nauðganir hafi tíðkast frá örófi alda er ekki þar með sagt að klámið sé ekki áhrifavaldur í nauðgunum í dag. Enginn hefur haldið því fram að áhorf á klám sé eini áhrifaþátturinn sem hefur áhrif á nauðganir. Skaðsemi kláms liggur heldur ekki einungis í því að vera áhrifavaldur í nauðgunum. Það er t.d. líka hægt að líta á klám sem hate speech. 

Það hvort eigi að banna klám eða ekki er önnur umræða - sem ekki var tekið á í pistlinum. Ég skrifaði þó einu sinni ritgerð þar sem ég komst að þeirri niðurstöðu að ofbeldisfullt klám, dýraklám og barnaklám ætti að vera bannað. Það virðist sem umræða um neikvæðar afleiðingar kláms teljist alltaf sem bann umræða - en það er sitthvor hluturinn að banna eitthvað eða tala um skaðsemi einhvers. Reykingar eru t.d. löglegar en þær eru skaðlegar - og eðlilegt að fjalla um þær sem skaðlegar. Pointið er sem sagt að það sem er leyfilegt er þar með sagt ekki skaðlaust. Umræðan ætti að taka mið af því. 

Varðandi áhrif kláms þá heyrði ég einu sinni tilvitnun sem hljómaði eitthvað á þessa leið:

"Pornography exists because men despise women. Men despise women because pornography exists"

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 4.2.2007 kl. 22:20

11 identicon

Góð grein, bætti minn skilning á afstöðu feminista gagnvart klámi töluvert.  En kynlífslanganir og þrár hjá fólki eru svo misjafnar, að eitt "ríkis" klám framleitt af sérfræðingum minnir mig á Martein Mosdal úr Spaugstofunni.  BDSM er t.d. furðu vinsæl iðja þar sem stór hópur af bæði körlum og konum fara í hlutverk drotnara og þess undirgefna.  Fólk sem þarf að fara í slíka leiki til að fá kynferðislega útrás fær líklega lítið út úr einhverju "réttu" klámi.  Það að ætla að ákveða hvað er eðlilegt kynlíf og hvað ekki er viss árás á persónuferlsi.  

Varðandi þetta mainstream klám, þá eru karlmenn auðvitað stærsti neytendahópurinn og eðlilegt að framleiðiendur efnisins laði efnið að þörfum markhópsins.  Markhópurinn vill setja sig í spor hetjunnar á skjánnum í hausnum og auðvitað á hann að vera óskeikul hetja.  Ég hef ekki séð þessa lítilvirðingu eins mikið og þú talar um, reyndar ekki mikill klámhundur, en yfirleitt eru þetta karlmenn sem konunar þrá og dá og gera allt fyrir, og auðvitað njóta þær þess í botn.  Þetta er að bara kynlífsútgáfa af hetjudýrkun.  Rocky og Rambo komnir inn á kynlífssviðið. 

Skarphéðinn (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 02:02

12 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Já - ég er svo sem ekki hrifin af þessari hugmynd um "erótískt efni framleitt af sérfræðingum" heldur. Var bara pæling sem mér datt í hug á sínum tíma... 

Varðandi Rocky og Rambo á kynlífssviðinu - og dýrkun kvennanna á þeim þá er það einmitt einn af göllum klámsins. Konur eru oft sýndar njóta alls kyns sársaukafullra og/eða niðurlægjandi athafna með "hetjunum". Það brenglar sýn beggja á gott kynlíf - niðurlægingin og sársaukinn verða talinn sjálfsagður partur af kynlífi.

Varðandi BDSM þá er ekkert í greininni sem flokkar það sem eitthvað óeðlilegt... Jane Ussher skrifaði reyndar áhugaverða grein um klám þar sem hún kemur inn á valdatengslin í lesbísku klámi. Greinin er í bókinni Feminism and Pornography eftir Drucilla Cornell.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 6.2.2007 kl. 02:46

13 identicon

Katrín þú talar um að það sé margsannað að klám sé skaðlegt.  Ég hef kynnt mér þessi mál og satt að segja eru rannsóknir mjög misvísandi.  Í raun er engin rannsókn sem ég hef séð sem færir rök fyrir þessu.  Helsta kenningin sem ég rakst á aftur og aftur var að það væri ofbeldisfullt klám sem væri skaðlegt.  Í raun og veru er það ofbeldið sem er vandamálið ekki kynlífið.

 Bara smá athugasemdir við alhæfingar þínar...

Sveinn (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 17:53

14 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Tengingarnar við ofbeldisfullt eru kannski þeir sem eru minnst umdeildar. Allar rannsóknir komast ekki að sömu niðurstöðu - en það eru til þó nokkrar sem sýna fram á skaðsemi kláms + reynslusögur kvenna - sem ætti að mínu mati að vera sá vitnisburður sem mest er mark takandi á. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 7.2.2007 kl. 00:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 332490

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband