Sjúkratryggingasjóður atvinnulífsins

Í 24 stundum í dag er umfjöllun um þær hugmyndir að færa almannatryggingakerfið að einhverju leyti yfir í hendur atvinnulífsins. Nánar tiltekið er verið að spá í nýjan sjúkratryggingasjóð. Öryrkjabandalagið mótmælir þessari þróun, enda mun kerfið ekki ná yfir þá sem ekki tilheyra atvinnulífinu. Það er full ástæða til að taka undir mótmæli Öryrkjabandalagsins og eru nokkrar ástæður fyrir því. Velferðarsamfélag sem byggir á því að allir séu jafnir verður að finna aðrir leiðir. Kerfi þar sem sumir eru jafnari en aðrir gengur ekki upp á slíkum stundum. Hætt er við að stéttskipting verði meiri og að félagslega verði erfiðara fyrir suma að vera á bótum en aðra þar sem mismunandi viðhorf mun fylgja, eftir því hvernig bætur um ræðir. 

Það er ekki hægt að segja að t.d. öryrkjar og ellilífeyrisþegar hafi það gott um þessar mundir. Bæturnar eru of lágar, þær eru enn tengdar að einhverju leyti við tekjur maka og meira að segja verða öryrkjar fyrir því að þegar börn þeirra ná 18 ára aldri þá ekki einungis falla bætur niður heldur teljast tekjur "barnsins" þá til tekna heimilisins og við það skerðast tekjurnar. Eins á fólk á hættu að bætur þeirra falli niður þurfi það að vera lengur en 6 mánuði á ári inn á sjúkrastofnun. Þetta er skelfileg staða fyrir suma - sem þurfa að standa skil á húsaleigu eða afborgunum af íbúðalánum (og jafnvel sjá fyrir börnum) hvort sem þeir eru heima hjá sér, á spítala eða í endurhæfingu. Ég veit um tilfelli þar sem 6 mánaða reglan varð viðkomandi alvarlegt tilefni til íhugunar um hvort henni væri hreinlega kleift að fá þá umönnun sem hún þarfnaðist. Ofan á þetta bætast málin sem Ásdís hefur bent á (undirskriftasöfnun hér). 

**

En það eru fleiri mál sem þarf að íhuga varðandi almannatryggingakerfi sem er beintengt við atvinnuþátttöku. Við höfum reynslu af slíku í gegnum lífeyrissjóðina. Hugsið ykkur allar þær heimavinnandi húsmæður sem ekki áttu rétt á lífeyri þar sem hann var bundinn við launaða vinnu en hið ólaunaða framlag kvennanna var bæði ósýnilegt og til einskis metið. Þetta var sannkölluð fátækragildra sem enn sést á meðal ellilífeyrisþega á Íslandi.

Ríkisstjórnin á að vinna samkvæmt samættingu jafnréttissjónarmiða. Það þýðir að skoða þarf alla svona ákvarðanatöku út frá því hvaða áhrif hún mun hafa á kynin. Augljóst er af stöðu kynjanna á vinnumarkaði að þau munu ekki sitja við sama borð. Karlar fá hærra greitt fyrir sömu störf og þeir fá líka meira greitt fyrir sitt vinnuframlag til samfélagsins því það fer að stærri hluta í gegnum atvinnulífið heldur en framlag kvenna (sbr lengri vinnudagur). Karlar njóta líka meiri framgangs í starfi og eru mun fleiri en konur í hæst launuðu hópunum. Konur eru t.d. ekki með nema um 64% af atvinnutekjum karla. Konur taka líka lengra fæðingarorlof en karlar, vinna oftar hlutastörf og taka sér meira hlé frá vinnu vegna barna. Sem sagt - ólaunaða vinnan er enn að stærstum hluta á herðum kvenna. Tekjutengdar sjúkratryggingar munu því ekki nýtast öllum jafnvel. Þær munu vera bestar fyrir útvinnandi karlmenn. Það er sá hópur sem hefur tögl og haldirnar í samfélaginu í dag (eins og tölfræðin sýnir). Sjúkratryggingar sem tengdar eru atvinnulífinu en ekki almannakerfinu eru bakslag í jafnréttisbaráttunni. Þær munu auka enn frekar á þann aðstöðumun sem er á milli karla og kvenna í þjóðfélaginu. Þær munu jafnframt auka mun á milli útivinnandi og annarra hópa. Þetta er bakslag en ekki framfaraskref. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Afar góður pistill.  Þakka þér.  Þetta er alvörumál . Það ber svo sannarlega að taka  undir með Öryrkjabandalaginu.  Það væri hroðaleg þróun í okkar góða samfélagi ef stéttarskiptingin á enn að aukast.  Þver á móti eigum við að gera allt  til að stemma stigu við slíkri stefnu.  Baráttukveðja.

Auður (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 11:15

2 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Góður pistill,nákvæmlega það sem mér finnst um þessi efni,setti svipuð sjónarmið fram á blogginu mínu í morgun,það þyrftu bara miklu fleiri að tjá sig um þetta svo ASÍ sjái hvaða gönuhlaup þeir stefna í.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 18.10.2007 kl. 12:31

3 identicon

Sammála og flottur pistill Katrín.

Ég held að í sölu á þessu nýja kerfi hafi "þeir"talið fram að þarna sé auðveldara að gera fólki kleyft að komast út á vinnumarkaðinn með örorku.Hljómar vel en ég því miður treysti ekki mörgu sem frá Sambandi atvinnurekanda kemur svo ég sé allt annað á milli línanna.

Sammála þér að það er svo sannarlega kominn tími má að endurskoða kynjavinkilinn í lífeyrisréttindakerfinu og er vonandi að ríkið sem á eftir að fara yfir þessar tillögur geri það af skynsemi.

Kannski er ráð að bombardera ríkið með athugasemdum einstaklinga og félagasamtaka um málið og halda góðum þrýstingi?

Margrét (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 17:49

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þakka þér fyrir að benda á minn pistil. Að sjálfsögðu er ég að berjast fyrir heildina þó svo ég taki dæmi sem eru nærtæk mér núna, þakka þér fyrir að skrifa svona góðan pistil um þetta mál.

Ásdís Sigurðardóttir, 18.10.2007 kl. 18:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 332500

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband