Tilraun til ritskoðunar

Nýverið birtust fréttir af því að Hugo Chavez forseti Venesúela hefði látið loka stærstu einkareknu sjónvarpsstöðinni vegna þess að hún var honum ekki nógu hliðholl. Vildi hann meina að sjónvarpsstöðin ynni að því að koma honum frá völdum. Mótmælum svaraði hann með hótunum um að loka fleiri sjónvarpsstöðvum. Ég þori að veðja að margir Íslendingar hafi hugsað með sér "sjúkkit... svona gerist ekki á Íslandi. Hér höfum við einna hvað frjálsustu fjölmiðla í heimi!"

Nú er annað að koma á daginn. Viðbrögðin við grein Ísafoldar um vændi og mansal á Goldfinger og tengsl bæjarstjóra Kópavogs við staðinn hafa eiginlega staðið á sér - en samt ekki. Fréttaflutningur af málinu er furðanlega lítill. Hann er reyndar í takt við það sem við sem höfum staðið í þessari baráttu höfum lengi fundið fyrir. Það má ekki snerta á þessum málaflokki. Klámstefnan fræga nærtækt dæmi. Þar kafaði enginn fjölmiðill ofan í hvers lagt viðbjóð var um að ræða og sumir fjölmiðlar gengu svo langt að láta líta út fyrir að efnið hefði snúist um brjóst, bera bossa og skemmtiferð - þvert á allar staðreyndir í málinu sem voru augljósar hverjum þeim sem skoðaði málið aðeins.

Ég hef lengi furðað mig á umfjöllun fjölmiðla um þessi mál og skort á rannsóknarblaðamennsku hvað varðar að skoða málin ofan í kjölin. Þetta vandamál er ekki einskorðað við Ísland og víða um heiminn velta femínistar og aðrir því fyrir sér hvað veldur því að karlar sem sækja þessa staði virðast njóta verndar. Þeir eru hinir ósýnilegu. Þeir eru aldrei sýndir í fréttaumfjöllun um staðina - sem væri þó eðlilegt. Hins vegar eru stúlkurnar sýndar grimmt - dansandi fáklæddar upp við einhverja súlu. Jafnvel í fréttum um tengsl mansals við staðina. Fjölmiðlar eru til í að taka sjensinn á því - að eitthvert stúlkugrey sem er fórnarlamb mansals sé sýnd með þeim hætti í fjölmiðlum svo eymd hennar sé afhjúpuð fyrir alla - undir þeim formerkjum að þarna sé um "saklausa" skemmtun karlmanna að ræða. Skemmtun sem gengur út á kúgun, niðurlægingu og stundum þrælahald kvenna.

En aftur að þögguninni og samstöðu karlveldisins um að hreyfa ekki við þessum málaflokki. Kaupás ákveður að henda út Ísafoldarblaðinu eftir að það er komið í dreifingu. Greinin augljóslega ástæðan þrátt fyrir að Kaupás reyni að neita fyrir það. Það á að bullshitta almenning - því forráðamenn vita sem er að svona ritskoðun er ekki lýðræðisleg. Sama fyrirtæki vílar ekki fyrir sér að vera með klámblaðið Bleikt og blátt á afgreiðslukössum verslana sinna. Þeir þola bara ekki að fjallað sé um góðvin þeirra Gunnar I. Birgisson og hann afhjúpaður á þann hátt sem gert er í greininni. Samt sem áður vissu margir af því fyrir að Gunnar væri fastagestur á þessum stað. Það hefur lengi verið almannarómur... það hefur bara ekki verið skrifað um það í fjölmiðlum áður eða lagðar fram myndir því til sönnunar.

Í rauninni er það mjög stórt skref og framför fjölmiðla að skrifa loksins um þessi málefni með því að skoða þau ofan í kjölin. Þessi harkalegu viðbrögð til að stöðva greinina og síðan dreifingu á blaðinu eru kannski vísbending um hvers vegna ekki er meira fjallað um þessi mál á þessum nótum. Nú hefur Ísafold tekið af skarið og það er frábært. Mannlíf getur hins vegar varla verið þekkt fyrir að halda áfram að birta auglýsingar frá Goldfinger í blaðinu eftir að systurblað þess hefur fjallað um að þar eigi sér stað vændi og mansal... Eða hvað?

Vonandi verður þetta rætt af alvöru í framhaldinu og að fólk velti því fyrir sér hvað sé eiginlega í gangi fyrst valdhafar gera allt sem þeir geta til að þagga svona mál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Það þarf vissulega að ræða stöðu fjölmiðla í nútímanum, eignarhald á þeim og tengsl við valdamenn. Það er hins vegar erfitt þegar svo margir fréttamenn eru í  afneitun gagnvart raunverulegri stöðu sinni.

Þakka þér annars fyrir bloggið þitt -ég les það mér alltaf til ánægju.

María Kristjánsdóttir, 1.6.2007 kl. 13:06

2 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Takk sömuleiðis fyrir skemmtilega og áhugaverða pistla á þínu bloggi!

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 1.6.2007 kl. 14:25

3 Smámynd: Brynja Björk Garðarsdóttir

Flottur pistill!

Brynja Björk Garðarsdóttir, 1.6.2007 kl. 14:35

4 Smámynd: Sigurður Jökulsson

þannig að á sínum tíma, átti fjölmiðlafrumvarpið kannski meiri rétt á sér heldur en vera vildi? Nú eru fjölmiðlar í eigu handfylli manna sem geta stjórnað því sem koma má fram á sviðsljósið. 

Sigurður Jökulsson, 1.6.2007 kl. 14:47

5 identicon

Ég er allveg sammála varðandi þessa tilraun til ritskoðunnar.

Magnús Hakonarson (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 14:55

6 identicon

Nú þekki ég ekki beint til þessa máls, hins vegar finnst mér ekki rétt að saka alla fjölmiðlamenn um að vera að taka þátt í einhverju allsherjarsamsæri.

Fjölmiðlar Íslands eru margir og í mikilli samkeppni, bloggheimar enn víðfeðmari, og því er í dag nær ógjörlegt að fela krassandi frétt sem þessa.  Hvaða völd hefur Gunnar I. Birgisson eiginlega? Ég hef aldrei heyrt orð um manninn utan þess sem ég hef lesið í blöðunum - ekki beinlínis manneskja sem er á allra manna vörum.

Þar af leiðandi held ég að þetta sé einfaldlega spurning um vinnubrögð sem oft er óskað eftir frá okkar stétt. Viðkomandi blaðafólk hefur hugsanlega ekki viljað birta vanunnar fréttir byggðar á framsögu eins aðila - ekki veit ég nákvæmlega ferlið en grunar að tíminn hafi verið skammur og vinnuálagið mikið eins og svo oft áður.

 Nú virðist þetta allt vera að sjóða upp og ekkert nema gott um það að segja, það er samt ekki hægt að ætlast til þess að fólk hlaupi með sögusagnir og rifrildi í fjölmiðla landsins án þess að huga vel að því að æra fólks sé ekki óþarflega rengd. 

Sjálfum finnst mér þetta nýjasta mál með blöðin sem ekki eru lengur seld í Kaupás ákaflega furðulegt og jafnvel heimskulegt sjálfsmark ef það kemur í ljós að svo augljósir hagsmunir hafi ráðið þar völdum.

 Með kveðju og þökkum fyrir oft ágætt blog,

 --- Gunnar Hrafn

Gunnar Hrafn (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 15:53

7 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

Veit svo sem ekkert um þetta Gunnarsmál.  Sá bara myndina í blaðinu og þetta var nú ekki aðalmálið í blaðinu.  Jón hinn góði var það.  En er það alveg á hreinu að kaupás hafi tekið blaðið úr sölu út af þessu? Og afhverju ættu þeir að gera það, hafa þeir eitthvað undir Gunnari?

Vitið þið hver á Ísafold?

Hafrún Kristjánsdóttir, 2.6.2007 kl. 01:11

8 identicon

Hafrún. Þeir segja að þetta hafi verið löngu ákveðið, þ.e að hætta að selja blaðið. En hvers vegna voru þeir þá að kaupa þetta eintak? Hvers vegna voru þeir að kaupa blaðið í þúsundavís, hafa fyrir því að koma eintökunum fyrir í hillunum í hverri einustu búð til þess eins að taka þau út daginn eftir? Það bara meikar ekki sens.

Svo lét eigandi Kaupáss hafa það eftir sér að Ísafold væri "Baugsmiðill" og þeir vildu ekki dreifa slíkum miðlum hjá sér (þeir hættu þó ekki að selja Séð og heyrt, Vikuna og fleiri "Baugsmiðla").

Jamm. Þetta meikar allt fullkomið sens hjá þeim, eða þannig.

Guðrún (IP-tala skráð) 2.6.2007 kl. 23:04

9 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

ég hef ekki hugmynd um það, veit ekki einu sinni hvort að búðir kaupi blöð og selji þau svo eða sjái bara um dreifingu. Var bara að velta því upp hvort að það gæti verið einhv önnur ástæða en þetta Gunnarsmál fyrir stoppinu.  Ef svo er ekki þá var ég að velta fyrir mér afhverju kaupás hefur svona mikinn áhuga á því að passa upp á æru Gunnars Birgis.

Hafrún Kristjánsdóttir, 3.6.2007 kl. 01:37

10 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Birtíngur sér um að dreifa blöðunum í verslanir. Tímasetningin á að henda blaðinu út er hins vegar sérkennileg. Kaupás að sjálfsögðu neitar að umfjöllunin um Gunnar og Geira sé ástæða þess að blaðinu er hent út og segja að það sé af öðrum ástæðum, t.d. slakri sölu og að tímaritið sé eitt af Baugsmiðlunum (aðspurður af fréttamanni tók Jón Helgi undir það). Hins vegar stangast á þær upplýsingar sem Kaupás og Birtíngur gefa upp um sölutölur. Kaupás segir að blaðið seljist illa á meðan Birtíngur segir að þetta sé eitt mest selda blaðið. Þetta með eignarhaldið á jafnt við um öll tímarit Birtíngs þannig að Kaupás ætti að henda öllum tímaritunum út ef þetta er ástæðan. Eins er skrýtið að fjarlægja blaðið eftir að það er komið í hillurnar. Nær hefði verið að hringja á undan og segjast ekki ætla að selja blaðið. 

Jón Helgi og Gunnar eru sagðir vinir og kannski eru þessi viðbrögð sprottin af vinskap... Hitt er hins vegar vert að hugsa rækilega um - hvernig stendur á þessu upphlaupi í kringum skrif um þessi mál á þessum nótum? Þ.e. þegar verið er að afhjúpa þessa starfsemi fyrir það sem hún raunverulega er. Hvernig á nokkurn tímann að takast að uppræta vændi og mansal - eða koma í veg fyrir að það aukist - þegar karlaveldið verndar þá sem að koma með öllum tiltækum ráðum, þ.á.m. þöggun og ritskoðun? 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 3.6.2007 kl. 14:06

11 Smámynd: Jens Guð

  Málflutningur Jóns Helga vekur ýmsar spurningar.  Hann segist selja 200 eintök af blaðinu á mánuði.  Reynir Traustason segir fyrirtæki Jóns Helga gera mánaðarlega upp fyrir sölu á 500 - 700 eintökum.

  Af hverju borgar Jón Helgi fyrir meira en tvöfalt fleiri blöð en hann selur?  Hvað verður um blöðin sem Jón Helgi borgar fyrir en selur ekki?

  Ísafold er mánaðarrit.  Það þýðir að Jón Helgi er að selja 2400 eintök á ári.  Söluhagnaðurinn er þá 1,2 millj. kr.  (ef við lítum framhjá öllum blöðunum sem Jón Helgi borgar fyrir en selur ekki).  Í verslunum Kaupáss eru margar vörur sem skila lægri söluhagnaði í krónum talið en Ísafold.

  200 seld eintök á mánuði þýðir þjónusta við 200 einstaklinga eða fjölskyldur sem langar að lesa Ísafold.  Líklegt er að uppistaðan af þessu fólki kaupi blaðið um leið og það gerir helgarinnkaup eða önnur innkaup í leiðinni.

  Þetta fólk er Jón Helgi reiðubúinn að hrekja frá sér og smala inn í Hagkaup eða Bónus. 

  Gunnar I.  Birgisson segist aldrei hafa farið leynt með ásókn sína í Gullputta.  Gullputti er einmitt ástæðan fyrir því að Gunnari þykir gott að búa í Kópavogi. 

  Ef Gunnar er stoltur af að sækja Gullputta af hverju er Jón Helgi svona viðkvæmur fyrir því?    

Jens Guð, 3.6.2007 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 332536

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband