Sérstaklega fyrir Óskar

Stundum á ég erfitt að með að skilja reiði sumra... Eins og til dæmis hans Óskars sem bloggar um þögn femínista um Breiðavíkurmálið. Meðal þess sem Óskar segir:

"Þögn femínista og samtökum tengdum þeim er æpandi en kemur kanski ekki á óvart.  Femínisminn á ekkert skilt við jafnrétti þegar vel er að gáð, - heldur er þetta fínt orð yfir karlahatur þessara aðila."

 Ég er varla í skapi til að tækla svona vitleysu en ákvað að gera það engu að síður þar sem Óskar virðist eiga sér nokkra skoðanabræður (og jafnvel -systur). 

Orðið femínismi er yfir aldagamalt orð yfir baráttu fyrir jafnrétti kynjanna. Eitt allra stærsta jafnréttismálið er kynferðislegt ofbeldi. Alltof stór hluti kvenna verður kynferðisofbeldi, annaðhvort í æsku eða á fullorðinsárum og hafa rannsóknir bent til þess að allt að þriðjungur kvenna verði kynferðisofbeldi á lífsleiðinni. Konur eru hins vegar ekki þær einu sem verða fyrir kynferðisofbeldi. Töluvert stór hluti stráka verður fyrir kynferðisofbeldi líka. Óbirt rannsókn Hrefnu Ólafsdóttur frá 2001 (minnir mig) leiddi í ljós að 23% stúlkna og 8% drengja yrðu fyrir kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur. Af þeim var um 2/3 hluti sem lenti í alvarlegu kynferðislegu ofbeldi. Nýlegri rannsókn, sem framkvæmd var árið 2004 en niðurstöður birtar í fyrra, leiddi í ljós að 13,6% stúlkna og 2,8% drengja hefðu verið misnotuð kynferðislega 18 ára aldur. Mismuninn má að einhverju leyti rekja til þess að í seinni rannsókninni er aðeins spurt um kynferðisleg misnotkun. Einnig er ágætt að hafa í huga að seinni könnunin er framkvæmd á meðal framhaldsskólanema eingöngu. Þar sem afleiðingar kynferðisofbeldis eru alvarlegar finnst mér ekki ósennilegt að talan myndi hækka ef ungt fólk sem ekki er í framhaldsskóla væri með í úrtakinu. Hvað sem því líður er ljóst að kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum er útbreitt og alvarlegt vandamál á Íslandi. 

Umræða um þolendur er eitt - umræða um gerendur er annað. Það er mikið tabú í íslensku þjóðfélagi að ræða ofbeldismennina sjálfa. Ekkert okkar vill þekkja kynferðisbrotamann eða kannast við að umgangast þá. Hin sársaukafulla staðreynd er hins vegar sú að öll okkar þekkjum kynferðisbrotamenn - og ef við erum heppin vitum við hverjir þeir eru. Miðað við fjölda þolenda eru ofbeldismennirnir nokkuð margir þó enginn viti hversu margir. Það sem við hins vegar vitum er að yfirgnæfandi meirihluti kynferðisbrotamanna eru karlkyns, en þó eru konur í hópi ofbeldismanna líka. Að vita nákvæma tölu fjölda ofbeldismanna skiptir ekki höfuðmáli í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Í mínum huga eru eftirfarandi atriði sem skipta máli:

  • Veita þolendum og aðstandendum úrræði til að takast á við afleiðingar þeirra brota sem þeir/þær verða fyrir.
  • Breyta löggjöfinni, breyta meðferð kynferðisbrotamála í kerfinu og búa til kerfi sem sakfellir kynferðisbrotamenn og lætur þá axla ábyrgð á gjörðum sínum.
  • Trúa þolendum og grípa til aðgerða þegar sagt er frá ofbeldi.
  • Leita allra leiða til að stöðva ofbeldið. Í því felst m.a. bætt kynfræðsla, barátta gegn klámi, vændi, mansali og að skapa jafnréttissamfélag sem byggir á jafnri stöðu og virðingu á milli kynja. Einnig þarf að vinna á móti ofbeldisdýrkun.

 Þetta er ekki tæmandi listi og væri gaman ef fólk bætti við leiðum í kommentakerfið Smile

Ég ætla að enda á að setja inn upphafsorðin úr miðvikudagspistlinum mínum í Viðskiptablaðið (bara fyrir Óskar - sem ég vona að fari að renna reiðin og átta sig á því að sá þjóðfélagshópur sem vinnur mest gegn kynferðisofbeldi eru femínistar. Að væna femínista um karlahatur þegar þetta er eitt allra stærsta baráttumálið er fullmikil yfirlýsingagleði fyrir minn smekk.)

 

"Þegar ég skrifa þennan pistil er ég nýbúin að horfa á Kastljósið þar sem Þóra Tómasdóttir tók viðtöl við nokkra karlmenn sem dvöldu á Breiðavík sem ungir drengir. Frásagnirnar af ofbeldinu eru svo skelfilegar að konu verður hreinlega illt af að hlusta. Sagan af Breiðavíkurdrengjunum kemur í kjölfar sögunnar af börnunum í Heyrnleysingaskólanum, Byrgismálinu, sögunnar hennar Thelmu og margra fleiri. Hún kemur líka í kjölfarið á því að Morgunblaðið birti myndir og nöfn þeirra 5 hæstaréttardómara sem milduðu dóm héraðsdóms yfir barnaníðingi úr tveggja ára fangelsi niður í 18 mánuði."

Það er mjög gott að karlmenn eru byrjaðir að tala opinberlega um það kynferðisofbeldi sem þeir hafa verið beittir í æsku. Opinber umræða um kynferðisbrot gegn konum hefur hjálpað mörgum konum að leita sér hjálpar og vonandi mun það sama gerast hjá körlum. Það er líka umhugsunarvert hvort ekki þurfi að opna nokkurs konar Stígamót fyrir karlmenn. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

stígamót eru líka fyrir karlmenn manstu

fífa (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 21:28

2 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Já, ég veit að Stígamót tekur mjög vel á móti karlkyns þolendum. Ég held samt að það geti verið erfiðara fyrir karlmenn að leita til kvenna með þessi mál - eða hvað? Kannski er það bara betra... Held í öllu falli að karlkyns þolendur verði að komast að niðurstöðu sjálfir. Það hefur verið lögð áhersla á að kvenkyns þolendur fái aðgang að kvenkyns sérfræðingum í gegnum ferlið - hvort sem það er í læknisskoðun, hjá lögreglu eða hjá Stígamótum. Karllægnin í kerfinu hefur verið gagnrýnd. Ég held að það sama gæti verið upp á teningnum með karlmenn - að þeim finnist auðveldara að leita meðferðar hjá sama kyni. Kannski er það rangt hjá mér... Endilega látið ljós ykkar skína sem hafið kynnt ykkur málið

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 11.2.2007 kl. 21:41

3 Smámynd: Kærleikur

Sæl Katrín,þar sem þú ert talsmaður(kona) þessa rauðsokkubandalags,vil ég fá viðbrögð frá þér,við svörum Auðar prests í DV um helgina, er fréttamaður er að leita svara um Bjargið. Ef þú last greinnina þá?Þessi blessaði prestur ætti að skammast sín!!AÐ NJÓTA GÓÐA VEÐURSINS.....!!!!! Er það kannski þitt svar líka???

Kærleikur, 11.2.2007 kl. 23:48

4 identicon

"Orðið femínismi er yfir aldagamalt orð yfir baráttu fyrir jafnrétti kynjanna." Rétt er aldargamalt og reyndar úrelt líkt og kommúnismi. Skilgreiningin sjálf er kvennræn, jafnræði væri unisexist eða eitthvað álíka. Réttara er bárátta fyrir réttindum kvenna.

Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 00:39

5 Smámynd: Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir

Hvað hrjáir alla þessa reiðu ungu menn sem sækja svona grimmt í kommenta kerfið hennar Kötu ?

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, 12.2.2007 kl. 04:44

6 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Bryndís: Ég held að sumir þeirra þjáist af karlrembu

Íslendingur: Les ekki DV og hef ekki hugmynd hvað þú ert að tala um. Ég vona samt að þú gerir þér grein fyrir því að konur eru ekki ein og sama manneskjan - ekki frekar en karlar eru ein og sama manneskjan. Eða langar þig kannski til að ég krefji þig svara um allt sem Gunnar í Krossinum lætur út úr sér? Ef þig langar til að spyrja mig um mitt álit á einhverju, þá er það í fínu lagi en þá þarftu líka að spyrja mig sem mig en ekki gera mér upp annarra manna skoðanir.  

Davíð Halldór: Hvað með orðin sjálfstæði, lýðræði, jafnrétti? Allt eldri orð en femínismi - eigum við að leggja þau niður því þau eru orðin úrelt?

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 12.2.2007 kl. 10:13

7 identicon

Gagnrýni Óskars finnst mér réttlát.

sigfus (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 11:35

8 identicon

Þú ert ekki að skilja mig, ég er bara að tala um að karlmenn eins og ég staðsetja sig ekki í kvennréttindafélagi í nútímaþjóðfélagi. Auk þess hversu mikið berjast kvennréttindafélög afrdráttarlaust fyrir réttindum karla?

Ég er mikill jafnræðissinni og jafnvel sjálfur úreldur komúnisti ef ég ætti að staðsetja mig einhversstaðar hehe. 

Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 10:02

9 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því. Flóknara er það ekki. Hvað er það nákvæmlega sem þú finnur þig ekki í í því? Vildirðu frekar vera súffragetta eða rauðsokki?

Mér er nokk sama um nafnið - það er merkingin sem skiptir máli. Jafnréttisbaráttan hefur leitt margt gott af sér fyrir karlmenn - föðurhlutverkið þar efst á blaði þó margt sé óunnið í þeim efnum. Leyfi til að vera manneskja má nefna sem aðra "afleiðingu" af jafnréttisbaráttunni. Svo mætti lengi telja. Hinu verður hins vegar ekki afneitað að enn eru það karlar sem fara með völdin í þjóðfélaginu og það hallar meira á konur. Ekki þar með sagt að allir karlar sitji við sama borð enda goggunarröð innan karlkynsins... 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 13.2.2007 kl. 10:29

10 identicon

Enda var ég aðeins að tala um nafnið og hlutverk þess en ekki sögu og tilvist. Ég ber mikla virðingu fyrir fólki sem hafa fyrir því að berjast fyrir rétti sínum og eru feministar í þeim hópi í mínum augum. Ég á bara erfitt að sjá hvenær við gætum sagt að fullu janrétti er náð og hver er mælieining á ójafnrétti osrv. Breyttur hugsunarháttur um að við værum núþegar jöfn og ættum að viðhalda því myndi t.d. gjörbreyta stöðu fólks í framtíðinni ekki rétt? :)

Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 10:56

11 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Jú en það er engin ástæða til að ljúa að fólki

Karlar og konur hafa alltaf verið "jöfn" að því leytinu til að karlar eru frá náttúrunnar hendi ekki hæfari eða betri en konur. Þeir hafa bara verið við völd og ástæðan er ekki sú að þeir hafi verið gáfaðari eða haft meira vit en konur... Við höfum því alltaf verið "jöfn" í þeim skilningi. Hins vegar hefur sá hugsunarháttur verið ríkjandi að karlar eigi að vera konum fremri og æðri. Sá hugsunarháttur hefur ríkt lengi og ríkir enn, því miður. Sést t.d. á því hvort þykir flottara að vera stelpustrákur eða strákastelpa. Líka á því að þegar á að draga eitthvað niður er það kvengert - t.d. sparkar eins og stelpa, keyrir eins og kerling og þar fram eftir götum. Í þessu felst mat á því hvort kynið á að vera betra skv ríkjandi hugmyndum um stöðu kynjanna. Þessar hugmyndir taka síðan á sig ýmsar birtingarmyndir - t.d. klám, vændi, kynferðisofbeldi, ójöfn tækifæri að völdum og launum o.s.frv.

Orðið femínisti vísar kannski til þess að enn hallar á konur - en það er ekki frátekið fyrir konur eða kvenréttindabaráttu. Ég kýs að líta svo á að karlar græði heilmikið á jafnrétti. Hins vegar er líka mikil umræða núna um orðið jafnrétti -  hvað felur það í sér? Æ fleira fólk er ósátt við að konur eigi að þurfa að haga sér eins og karlar og taka upp karllægt gildismat til að fá sömu tækifæri. Þess vegna heyrist orðið kvenfrelsi æ oftar - frelsi fyrir konur til að vera konur á eigin forsendum en vera ekki útilokaðar frá völdum og jöfnum tækifærum fyrir vikið. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 13.2.2007 kl. 11:05

12 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps. auðvitað átti þetta að vera ljúga... en ekki ljúa.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 13.2.2007 kl. 11:17

13 identicon

Ef við ætlum að ná fram markmiðum eins t.d. jafnræði þurfum við first að trúa því að við séum jöfn. Sem einstaklingur er ég jafn þér en undir ef við tökum tilit til mennturnar til dæmis. Þannig hugsa ég og flestir sem ég þekki.

Við kölluðum þroskahefta ekki lengur fávita og notum orð eins og negri ekki mikið. Kynlæg uppnefni munu líklegast lúta sömu lögmálum. 

Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 11:36

14 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Í mínum huga er það mjög skýrt að kynin séu jöfn - jafnhæf, jafngóð og þar fram eftir götum. Það er líka mjög skýrt að kynin eru meðhöndluð á ólíkan máta í samfélaginu - aðrar væntingar til kynjanna, önnur hlutverk o.s.frv. Þess vegna er mjög mikilvægt að bæði kyn hafi jafnan aðgang að völdum og áhrifum. Völdum er ekki dreift í samfélaginu skv menntun. Kyn virðist vera miklu meira ráðandi þáttur

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 13.2.2007 kl. 12:05

15 identicon

Því er ég fyllilega sammála :)

Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 332490

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband