Heilsa óháð holdarfari

Auglýsingar eru stór áhrifaþáttur í okkar samfélagi. Hvort sem fólk gerir sér grein fyrir mætti auglýsinga eða ekki þá hafa þær áhrif. Auglýsingar eru framleiddar og birtar markvisst í þeim tilgangi að fá okkur til að haga okkur á ákveðinn hátt. Að vissu leyti má kalla það forræðishyggju... eða er það ekki jafnmikil forræðishyggja að segja börnum að fara á McDonalds eins og að segja þeim að fara ekki?

Annars er eitt sem mér finnst virkilega mikilvægt umhugsunarefni í sambandi við McDonalds auglýsinguna og ítölsku auglýsinguna þar sem myndefnið er nakin kona með anorexíu. Í báðum tilfellum snýst umræðan um offitu... Þarna erum við að sjá báða endana á spýtunni en ekki spýtuna sjálfa, ef svo má að orði komast. Fitan er orðin að algjöri tabúi og hvarvetna keppist fólk við að fjalla um fituna sem vandamál. Fókusinn í umræðunni er líka um útlit. Fólk keppist við að tala um hvernig fyrirsætan á myndinni lítur út og einhvern veginn verður það miðpunkturinn. Af hverju ekki frekar að tala um heilsu? Af hverju ekki að tala um lífsgæði? Sama á við um McDonalds - er skelfilegasta afleiðingin sú að börn verði feit eða er skelfilega afleiðingin áhrif á heilsuna? Anorexía er flókinn sjúkdómur sem á sér marga áhrifavalda. Einn af þeim eru fitufordómar - thin-ideal, eins og það er kallað. Það er að þykja til fyrirmyndar að vera ekki með gramm af fitu á sér, enda er fita skilgreind sem óvinurinn í okkar menningarheimi. Offitutal bætir ekki þar úr.  Eins og ég hef sagt áður og segi enn - það er mikilvægt að vera við góða heilsu. Þá nægir ekki að tala um offitu eins og það sé heilsufarsvandamál þegar heilsufarsvandamálin liggja frekar í hreyfingarleysi og óhollu mataræði. Holdarfar er ekki réttur eða nægjanlegur mælikvarði á heilsufar. Ég skil vel að fólk sem þykir það vera of þungt og finnur fyrir heilsuleysi eigi auðvelt með að skella skuldinni á þyngdina. Orsökin liggur samt ekki þar. Ef að þetta sama fólk hugsar um hvort það hreyfir sig nóg og borðar hollan mat - hvert er svarið þá? Er það allt í góðu standi? Sama á við um marga þar sem holdarfarið er fyllilega í samræmi við vestræna mælikvarða um gott heilsufar - margt af því fólki finnur samt til heilsuleysis - sökum ónógrar hreyfingar og óholls mataræðis. 

Þegar umræðan snýst um holdarfarið en ekki heilsuna er hætt við að fólk grípi til alls konar ráða til að halda sig innan "ásættanlegrar" þyngdar. Slíkar aðgerðir eru oftar en ekki óheilsusamlegar - og geta leitt til bæði vannæringar og þyngdaraukningar, svo ekki sé minnst á að ýmislegt bendir til þess að þeir heilsubrestir sem oft eru tengdir við offitu tengist frekar megrunarkúrunum. Fitufordómar bæta ekki heilsufar þjóðarinnar. Heilsa óháð holdarfari er slagorð sem Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur hjá BUGL hefur oft haldið á lofti. Það hljómar mjög skynsamlega í mínum eyrum... ef að McDonalds er óhollur skyndibiti þá ætti að benda á tengslin á milli óhollustu og heilsu - ekki óhollustu og holdarfars.

Og að lokum - hér er ákvæði úr siðareglum SÍA og útvarpslögum um auglýsingar til barna og unglinga:

Siðareglur SÍA:

13. gr. Börn og unglingar

1. Í auglýsingum skal ekki misnota hina eðlilegu trúgirni barna né reynsluskort yngri kynslóðarinnar og skal þess gætt að auglýsingar raski ekki samlyndi innan fjölskyldunnar.

2. Auglýsingar sem beint er til barna eða unglinga eða eru líklegar til að hafa áhrif á þá aldursflokka skulu ekki innihalda staðhæfingar eða myndir sem gætu skaðað hina yngri geðrænt, siðferðislega eða líkamlega.

 Útvarpslög:

20. gr. Vernd barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum.
Útvarpsauglýsingar skulu þannig gerðar og fluttar að þær valdi ekki börnum siðferðilegum eða líkamlegum skaða. Í útvarpsauglýsingum er óleyfilegt að:
   a. hvetja börn til þess að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni,
   b. hvetja börn til þess að telja foreldra sína eða aðra á að kaupa vöru eða þjónustu sem auglýst er,
   c. notfæra sér það sérstaka trúnaðartraust sem börn bera til foreldra, kennara eða annars fólks eða
   d. sýna börn að tilefnislausu við hættulegar aðstæður.

 

 


mbl.is Auglýsa skyndibita á undan barnatíma RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já þetta er mjög áhugavert sem þú setur fram. Ég er sammála þessu með að fókusa meira á heilsufar en ekki gera endalaust út á offitu. Ég vil meina að heilsuleysið og offitan sé oft fylgifiskur þess óholla lífsstíls sem margir lifa. Þannig að það er sami óholli líffstíllinn sem veldur kvillunum og offitunni en það er oft talað um að kvillarnir komi í kjölfar offitunnar. Vinn við einkaþjálfun og þá hittir maður oft grannt fólk sem virðist í fínu formi (af því að maður er búinn að stimpla inn að tengja alltaf slæmt form við offitu) en er langt frá því að vera frískt eða yfir höfuð í góðu formi.

Styð það að tala um að hafa góða heilsu og vellíðan og ef þyngdin er til trafala þá eru meiri líkur á að ná árangri þar ef fókusinn er tekinn af fitunni og losa sig þessar endalausu fituhugsanir og fitutal.

Einkaþjálfari í fínum fílíng, þó með aukakíló :)

Ragnheiður J. Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 08:04

2 identicon

Mér finnst allt í fína lagi að minnast á þessa hlið á hinu mikla vandamáli sem heimurinn er að berjast við "OFFITA".

Þegar ungar stúlkur eru byrjaðar í megrun á leikskólaaldri verður maður ósjálfrátt reiður og fer að hugsa út í það sem börn skynja og meðtaka í samfélaginu. Foreldrar kannski segja frekar "Ekki borða nammi, það gerir þig feita/n" frekar en að benda á það að nammi skaðar tennur fremur en fitar barnið. Barnið er ekki með tutlu utan á sér, en er samt í átaki með að verða ekki eins og eitthvað sem er slæmt, sem þau skynja.

Ég hef alltaf verið í góðum holdum, ég er ekki að mæla því bót. En einnig hef ég verið svo hraust að fólk trúir því ekki, því það er með fyrirfram ákveðnar hugmynd um að aukakíló geri mann í lélegu formi og að sjúklingi einhversskonar. Ég hef verið með nokkuð mörg kíló utan á mér, en samt hlaupið hraðast í bekknum, kastað lengst í kúlu og hoppað lengst í langstökki.  

Ég er ófrísk núna, og ég er vel yfir kjörþyngd. Samkvæmt reglum eru konur sem eru svona mikið yfir kjörþyngd og ganga með barn látnar í allskyns próf, með þeim er "betur" fylgst og við erum í meiri hættu á að fá meðgöngusykursýki, eignast of stór börn, of hár blóðþrýstingur, kæfisvefn og svona get ég lengi talið. Það er alltsaman gott og gilt og þakka ég mikið fyrir þetta eftirlit, bara barnsins míns vegna.  Þetta er ekki algilt og finnst mér stundum verið að búa til vanda með þessu þegar enginn vandi er. Mikið fannst mér gaman að fara í sykurpróf þar sem ég stóðst mælinguna eins og "venjuleg" manneskja, þrátt fyrir að líta ekki út fyrir að standast prófið. Hver gerir það? Höfum við ekki öll okkar vandamál líkamlega? Þó að einhver sé feitur, þarf ekki að vera að hann þjáist á neinn hátt fyrir það, nema andlega.

Feit = óheilbrigð  ?

Þau vandamál sem ég tekst á við með minn líkama er ekkert frábrugðin þeim vandamálum sem annað fólk tekst á við, og það er ekki 20-30kg yfir kjörþyngd. Hvað er kjörþyngd btw?? Hæð = ákveðin þyngd. Það virkar bara allt ekki svoleiðis, langt frá því.

Ég get sagt að það versta sem ég upplifi við það að vera of þung er það að vera of þung í annarra augum. Maður er svo upptekin af því að reyna að grenna sig, reyna að ná einhverri staðalímynd, reyna að passa inní að maður upplifir sig sem sjúkling og annars flokks manneskju. Það eru margir sem eru mjög heilbrigðir, með sterk bein, með fallega húð og hár, ekki með of háan blóþrýsting, borðar hollt fæði, hreyfir sig og líður vel á líkama og sál fyrir utan það augljósa, að maður er of feitur samkvæmt "kjörþyngd", og sumir alltof þungir miða við þessa staðla. 

Þú ert ekki endilega sjúklingur þó þú sért of þung/ur. Þú getur verið í mjög góðu formi og getur gert allt sem "hinir" gera. Allavega get ég það. Ég gæti talað um þetta endalaust :)

 Afsakið ef þetta passar ekki inní umræðuna, ég skrifa sjaldan athugasemdir á bloggsíðum, en þetta umræðuefni snertir mig og ég vil að fólk hugsi aðeins út í hvað er vandamál í raunveruleikanum, ekki hvað vandamálið lítur út fyrir að vera. 

Ingibjörg (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 11:36

3 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Takk Ingibjörg - og þetta er akkúrat málið. Mjög þarft og gott innlegg

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 27.9.2007 kl. 15:04

4 Smámynd: halkatla

þetta er góð grein og frábær komment

halkatla, 27.9.2007 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 332472

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband