Stórkostlegt kæruleysi

Held að þessa tímabils í mannkynssögunni (ef við lifum það af, þ.e.a.s.) verði minnst sem tíma stórkostlegs gáleysis, kæruleysis, áhættusækni og heimsku. Síðustu 50 ár höfum við séð all svaðalega eyðileggingu á jörðinni, svo mikla að óvíst er hvort hér verði byggilegt í framtíðinni. Það er eins og fólk haldi að áhættan sé alltaf þess virði og að hægt sé að bæta úr öllum skaða. Almenn skynsemi ætti samt að segja fólki að það er ekki hægt. Sumt tjón er óbætanlegt og sumar gjörðir óafturkræfanlegar. Að ætla að byggja Ísland upp sem „hreint og fagurt land“ á sama tíma og setja á erfðabreytt bygg út í náttúruna, byggja álver út um allt, hefja olíuvinnslu o.s.frv. eru einfaldlega ósamrýmanleg markmið.

Það þýðir ekkert að segja að erfðabreyttum lífverum megi ekki sleppa út nema með fyllstu varúð - það á einfaldlega ekki að sleppa erfðabreyttum lífverum út í náttúrna. Vona að sem flest ykkar hafið séð heimildaþáttinn sem sýndar var á RUV fyrir þó nokkru síðan um skaðann sem erfðabreyttur maís er að gera. Við lifum á náttúrunni og náttúran á alltaf að njóta vafans. Peningalegur hagnaður fyrir örfáa útvalda er ekki nægjanlega góð röksemdarfærsla til að gambla með lífríkið.


mbl.is Grundvallarspurning um mann og náttúru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Marteinsson

Sæl Katrín, var að velta fyrir mér hvort þú hefðir lesið þetta á síðu ORF

http://www.orf.is/frettir/frett/nr/115214/

Auðvitað gætu þeir verið að ljúga eða bara vita ekki betur... en ég held það sé ekkert heldur dregið upp úr hatti hvaða fyrirtæki fá nýsköpunarverðlaun ár hvert.

 Annars virðist þessa dagana ekkert vera hægt að ræða um þessi mál af alvöru, það er endalaust verið að tala um erfðabreytt matvæli - en það er ekki það sem ORF er að gera. Langt í frá. Þetta er spurning um að búa til prótín á ódýran hátt fyrir lyfjaiðnað sem gæti haft í för með sér að lyf handa 3ja heiminum gætu kostað nokkrar krónur í stað nokkur hundruð þúsund krónur. Ég myndi segja að peningurinn og störfin sem skapast af því hér á Íslandi sé nú bara lítill bónus.

Kveðja,

Kári

Kári Marteinsson, 8.6.2009 kl. 13:44

2 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Sæll Kári.

Já ég er búin að kynna mér hvað Orf er að gera. Þeir eru reyndar ekki bara að fókusa á lyf og læknisfræði heldur einnig snyrtivörumarkaðinn - og auðvitað eru peningalegir hagsmunir þarna stór þáttur þó vísindin séu það eflaust líka.

Það breytir hins vegar ekki því að það á ekki að leyfa ræktun á erfðabreyttu byggi úti í náttúrunni. Þrátt fyrir að sumir vísindamenn segi að ólíklegt sé að bygg geti vaxið hér villt o.s.frv. þá er ágætt að skoða það líka í því ljósi að þá er miðað við núverandi veðurfar - sem er akkúrat mjög breytilegt og mun örugglega hlýna næstu árin/áratugina og það kemur að því að byggið getur vaxið hér villt.

Það á eftir að rannsaka mjög margt í sambandi við erfðabreytt efni og þetta er ekki áhættunar virði, auk þess sem þetta samræmist engan veginn þeirri framtíðarsýn að ætla að byggja Ísland sem „hreint land - fagurt land“. Íslendingar verða að læra fyrr en seinna að það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 8.6.2009 kl. 14:00

3 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Ágæta Katrín:

Á hverju byggir þú slíkar fullyrðingar:

"Það þýðir ekkert að segja að erfðabreyttum lífverum megi ekki sleppa út nema með fyllstu varúð - það á einfaldlega ekki að sleppa erfðabreyttum lífverum út í náttúrna."

Allir okkar helstu sérfræðingar á þessu sviði hafa sagt að það sé engin markverð áhætta af þessu. Það hafa engin fræðileg rök verið færð fyrir því að þessar byggplöntur geti skaðað viðkvæma náttúra okkar. Gunnar Gunnarsson í nefnd um erðfabreyttar lífverur er EKKI séfræðingur á sviði erfðbreyttra lífvera og færir engin rök fyrir áhættunni í minnihlutaáliti sínu. Kristín Vala forseti fræðasviðs Verkfræði- og raunvísinda við HÍ er ekki heldur sérfræðingur á þessu sviði, en það eru aftur á móti Ólafur S. Andrésson, Eiríkur Steingrímsson, Áslaug Helgadóttir og fleiri fræðimenn sem hafa ekki séð neina hættu þessu samfara.

Eigum við að byggja upp samfélag sem treystir ekki áliti fræðimanna? Eigum við að byggja samfélag sem þar sem órökstuddar fullyrðingar eins þín hér að ofan (".....það á einfaldlega ekki að sleppa erfðabreyttum lífverum út í náttúrna.") stjórna stjórnvaldsákvörðunum.

Þú fullyrðir að þetta samrýmist ekki framtíðarsýn Íslendinga. Þú mátt tala fyrir þig - en það er svo sannarlega framtíðarsýn mín að öflug hátæknifyrirtæki/sprotafyrirtæki geti þrifist svo fremi þau standast þær kröfur sem lönd austan hafs og vesta gera til slíkra fyritækja. Orf fellur undir þá sýn mína. Dæmigert líftæknifyrirtæki sem hefur vaxið úr íslensku háskólasamfélagi - veitir háskólamenntuðu fólki atvinnu, getur vonandi skapað okkur útflutningstekjur og miklu meiri virðisauka þegar til framtíðar er litið en stóriðja. Ef að þú og þín skoðanasystkin ætlið að stöðva slík fyrirtæki þá vil ég að sé gert með einhverjum sterkari rökum en þú færir fyrir máli þínu hér að ofan.

Magnús Karl Magnússon, 8.6.2009 kl. 17:17

4 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Magnús, þrátt fyrir að helstu sérfræðinginar telji að af þessu stafi engin markverð hætta af þessu þá er staðan bara þannig í þessum vísindum að þekkingin er enn sem komið er ófullkomin. Það á ýmislegt eftir að koma í ljós varðandi erfðabreyttar lífverur og náttúran er of mikilvæg og verðmæt til að gambla með hana.

Öflug hátæknifyrirtæki/sprotafyrirtæki geta vel fallið að framtíðarsýn Íslendinga án þess að náttúran sé lögð undir þau. Það er ekki í lagi að fámennur hópur manna geti fengið að spila með náttúruna bara svona upp á sitt einsdæmi og án þess að góð og gegn þjóðfélagsumræða um það eigi sér stað. Ef þetta er leyft þýðir það grundvallarbreytingu á Íslandi - þá erum við orðin að landi þar sem erfðabreyttar plöntur eru ræktaðar úti í landinu. Það er ekki eitthvað smámál, sérstaklega í ljósi þess að erlendis er ýmislegt að koma í ljós varðandi „aukaverkanir“ af erfðabreyttum matvælum og eflaust á eitthvað af því við um þetta líka.

Orf getur eftir sem áður starfað áfram - en ræktað byggið innandyra eins og hefur verið fram að þessu. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.6.2009 kl. 08:57

5 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Ágæta Katrín…Þú getur ekki verið þekkt fyrir að nota nákvæmlega sömu rök og afneitunarsinnar í loftlagsmálum… “þrátt fyrir að helstu sérfræðinginar telji að af þessu stafi engin markverð hætta af þessu þá er staðan bara þannig í þessum vísindum að þekkingin er enn sem komið er ófullkomin.” Með þessu gjaldfellir þú þá sérfræðinga sem hafa tekið afstöðu og notar rök SEM ALLTAF er hægt að nota þegar maður er ekki sammála fræðilegum rökum. Þessi punktur um óvissu er nákvæmlega það sem sem sérfræðingar taka tillit til í mati sínu. Þeir telja enga markverða hættu þessu samfara byggt á þeirriþekkingu sem nú er til staðar. Það er sem sagt byggt á bestu mögulegu þekkingu sérfræðinga á sviðinu. Þú valtar yfir slík rök með rökleysunni “þekkingin er enn sem komið er ófullkominn”. Öll fræðileg þekking er ófullkominn en við verðum að byggja alit okkar á bestu mögulegu þekkingu á hverjum tíma. Það er mat þeirra nú að íslenskri náttúru stafi engin markverð hætta af þessu. Þú segir einnig „Það er ekki í lagi að fámennur hópur manna geti fengið að spila með náttúruna bara svona upp á sitt einsdæmi og án þess að góð og gegn þjóðfélagsumræða um það eigi sér stað.“ Umræðan er nú að eiga sér stað en það hlýtur að vera réttur lítilla fyrirtækja (í þinum orðum „fámennur hópur“, væntanlega eiga þá stórfyrirtæki meiri rétt!!) að farið sé að lögum og mál þeirra hljóti málefnalega umfjöllum. Ef að málið snýst einvörðungu um meiri umhugsunartíma – þá held ég að við öll getum fundið sáttaleið en þegar þú segir „það á einfaldlega ekki að sleppa erfðabreyttum lífverum út í náttúrna...“  þá sýnist mér að þetta snúist ekki um lengri eða skemmri umhugsunarfrest.Þannig að þegar þú segir „Öflug hátæknifyrirtæki/sprotafyrirtæki geta vel fallið að framtíðarsýn Íslendinga án þess að náttúran sé lögð undir þau“  - þá erum við sammála. Þar sem okkur greinir á er að ég treysti okkur bestu sérfræðingum og fræðimönnum á sviðinu til að meta hvort náttúran sé lögð undir en þú notar markleysur eins og  „þekkingin er enn sem komið er ófullkomin“ (með öðrum orðum Katrín ætla ekki að hlusta á sérfræðinga þegar þeir eru ósammála hennar órökstuddu hræðslu).

Magnús Karl Magnússon, 9.6.2009 kl. 10:05

6 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

PS: af einhverjum ástæðum duttu út öll greinarskil í í kommenti hér að ofan!

Magnús Karl Magnússon, 9.6.2009 kl. 10:08

7 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Magnús þú lítur líka fram hjá því að íslenskir sérfræðingar eru ekki einróma. Í stað þess að skoða það þá valdirðu þá leið að stimpla þau sem eru ósammála sem ómarktæka „ekki-fræðimenn“.

Vísindin eru ófullkomin og margvísleg kúgun hefur verið fram í nafni vísinda. Kynjajafnrétti er þar nærtækt dæmi en það er ekki svo ýkja langt síðan að konur áttu ekki að fá menntun að mati sumra vísindamanna þar sem menntun átti að leiða til ýmissa líkamlegra og andlegra sjúkdóma kvenna. Þó að ég sé sammála þér í því að nýta á sérfræðiþekkingu betur en hér er gert og taka eigi mark á fræðifólki þá set ég eftir sem áður þann fyrirvara að það á ekki að líta á fræðimenn sem n.k. óskeikula hálf-guði. Sum mál eru þess eðlis, eins og þetta tiltekna mál, að það er full ástæða til að fara mjög varlega. 

Að lokum - Náttúrulækningafélag Íslands var að senda frá sér ályktun þar sem þessu er mótmælt. Það að leyfa einu ft að vaða út í náttúruna með erfðabreyttar lífverur getur haft áhrif á afkomu annarra fyrirtækja. Málið er því ekki svona klippt og skorið eins og þú nefnir áður með stuðning við sprotafyrirtæki - það þarf að taka fórnarkostnaðinn með í reikninginn líka.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.6.2009 kl. 10:22

8 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Svona aðeins til viðbótar. Vísindasamfélagið er sem betur fer að vitkast aðeins varðandi meint hlutleysi. Engin er hlutlaus og sumar fræðigreinar taka það betur með inn í reikninginn er aðrar. T.d. er sums staðar orðin krafa um að rannsakandi staðsetji sig með tilliti til rannsóknarefnisins og það væri mjög fínt ef þeir sérfræðingar sem hér hafa tekið afstöðu séu staðsettir. Það hefur m.a. komið fram að Landbúnaðarháskólinn er hluthafi í Orf og þaðan koma líka sérfræðingar sem eru hlynntir þessu. Það merkir með öðrum orðum að þarna eru hagsmunatengsl. Vinatengsl og ýmis önnur tengsl geta líka spilað rullu. Allt þetta þarf að vera uppi á borðum.

Það er líka mikilvægt að það komi betur fram að sérfræðingar eru bara alls ekki á einu máli um þetta. ESB gefur t.d. ekki leyfi fyrir erfðabreyttum lífverum úti í náttúrunni. Ef við gefum þetta leyfi verðum við „mengað“ land og það er of dýru verði keypt. Innanhúsræktun er lang skynsamlegasta lausnin.

Enda þetta á tilvitnun í Slow Food samtökin - áhættan er of mikil:

„Slow Food hefur mjög skýra stefnu varðandi erfðabreytt lífverur í náttúrunni og er alfarið mótfallið því: það er sífellt að koma betur og betur í ljós í erlendum rannsóknum hvers konar skaðvaldur erfðabreyttar lífverur eru, ógn við landbúnað, lífræðilegan fjölbreytileika, heilsu manna og dýra. Vér segjum einfaldlega NEI við þessu...Orf hefur allan burða til að framleiða þessi próteín í hátæknigróðurhús og við þurfum ekki að veðsetja landið og náttúru þess vegna þeirra.“

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.6.2009 kl. 10:39

9 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Ég sagði ekki að Gunnar Gunnarsson eða Kristín Vala væru ómarktækir fræðimenn - en þau eru ekki sérfræðingar í sameindalíffræði eða búvísindum- þeim fræðigreinum sem um ræðir til að meta áhættuna af slíkri ræktun.

Ég satt að segja skil ekki hvað kynjamisrétti í vísindum á fyrri hluta 20. aldar koma þessu máli við. Kynjamisrétti gegnumsýrði alla þætti okkar samfélags á þeim tíma og voru vísindin rétt eins og önnur svið.

Oo hvað í ósköpunum áttu við með þessu ... "Þó að ég sé sammála þér í því að nýta á sérfræðiþekkingu betur en hér er gert og taka eigi mark á fræðifólki þá set ég eftir sem áður þann fyrirvara að það á ekki að líta á fræðimenn sem n.k. óskeikula hálf-guði."

Hver er að tala um óskeikula hálf-guði. Það vill þannig til í þessu máli að fræðimenn leggja fram vel rökstuddar skýrslur en af því að þær falla þér ekki geð þá vilt þú kalla þá óskeikula hálf-guði. Hvernig væri að nota rök í þessu máli. Hver er áhættan að þínu mati?  Ef þú hefur getur ekki svarað því, vildir þú vera svo væn að nefna fræðimenn sem hafa bent á áhættuna í þessu einstaka tilfelli. Eða hefur þú kannski bara tekið þá afstöðu að aldrei megi sleppa erfðabreyttum plöntum í íslenska náttúru - ...... af því bara. 

Í guðanna bænum lyftum umræðuinni á hærra plan.

Magnús Karl Magnússon, 9.6.2009 kl. 10:56

10 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Magnús það er styrkur að fá breiðara svið sérfræðinga til að hafa skoðun á málinu og velta því upp frá fleiru en einu sjónarhorni. Sérfræðingar sem hafa sérhæft sig í erfðabreyttri tækni eru t.d. eðli málsins skv varla hlutlausir heldur búnir að taka afstöðu fyrirfram. Það að hleypa erfðabreyttum lífverum út í náttúruna er ekki einungis afmarkað tæknilegt atriði heldur heldur heljar stórt mál. Það ætti að skoða það út frá heimspekilegum og siðfræðilegum forsendum auk tæknilegra þátta. Kristín Vala er sérfræðingur í jarðvísindum - og það er í raun grát-broslegt að sjá sagt að sú fræðigrein komi þessu máli ekki við og hún hafi ekki yfir nægjanlegri þekkingu að búa.

Bottom line er að málið er umdeilt og þú getur sjálfur fundið haug af erlendum fræðimönnum sem munu segja þér að leikur með erfðabreyttar lífverur í náttúrunni er áhættusamur - sérfræðingar eru ekki einróma og mörg lönd eru með bann við svona tilraunastarfsemi í náttúrunni. Hin áhættusækna íslenska þjóð ætti ekki að halda sig við þá hugmyndafræði. Við eigum ekki að leitast við að vera í fararbroddi í að breyta „hinu fagra óspillta Íslandi“ (og já ég veit að við erum langt frá því að uppfylla þessa sjálfsmynd í raunveruleikanum) í „erfðabreytta Ísland“.

Ef þú kynnir þér þá þróun sem er að verða í umhverfismálum og hvaða verðmæti verða verðmætust í framtíðinni... þá er svarið nokkuð augljóslega ekki í erfðabreyttu landi heldur akkúrat þvert á móti. Vona að þú hafir séð heimildarmyndina HOME sem sýnd var á RUV um helgina. Það hefur aðeins tekið mannkynið hér um bil 50 ár að rústa jörðinni með alls kyns inngripum og stórtækum aðgerðum. Það er alveg kominn tími til að við látum staðar numið og eftirlátum komandi kynslóð eitthvað í staðinn fyrir að taka allt - eins og gráðug kynslóð sem hugsar ekki um framtíðarvalkosti heldur tekur sér valdið til að ráðskast með allt - og þar kemur inn hugmyndin með hálf-guðina; að telja sig hafa valdið og getuna til að drottna yfir náttúrunni og beygja hana undir sitt vald. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.6.2009 kl. 11:32

11 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Ég bið um rök - þú segir af því bara. Þú segir að málið sé umdeilt. Það eru líka mörg önnur atriði umdeild. Femínismi sem fræðigrein er umdeild, kristin trú er umdeild, knattspyrnufélagið Valur er umdeilt, ég ætla ekki að banna starfsemi þeirra. Grundvallaratriðið er að það þarf málefnaleg rök til að hafna umsókn Orf. Þau þurfa að byggjast á lögum annars vegar og gildum fræðilegum rökum hins vegar. Þú hefur á hvorugt bent máli þínu til stuðnings.

Þú segir mér að kynna mér það sem er að gerast í umhverfismálum. Ég þekki það bísna vel. Ég horfði á Home og líkaði bísna vel. Ég sá þar ekkert sem mælti móti því að nýta líftækni í lyfjageiranum. Iðnaðarlandbúnaður líkt og sá sem lýst var í myndinni Home á nákvæmlega ekkert skylt með starfsemi Orf utan að örlítið brot af iðnaðarlandbúnaði notast við erfðabreytingar (til ræktunar á erfðabreyttum matvælum). Orf er ekki að framleiða erfðabreytt matvæli. Það er fjarstæða að halda því fram að Ísland sé að breytast í einhvers konar hryllingsmynd iðnaðarlandbúnaðar þó svo að eitt framsækið lítið fyrirtæki fái tilraunaleyfi til útiræktunará efðabreyttu byggi.

Ég hef verulegar áhyggjur af ástandi umhverfismála, en ef umhverfissamtök ætla að gera mál sem þetta að sínu baráttumáli þá hef ég áhyggjur af því að hún sé á rangri leið.  Ekki gera mér upp skeytingarleysi gegn náttúrunni eða komandi kynslóðum. Við þurfum að fara varlega og eftir að hafa kynnt mér gögn í þessu máli sé ég ekkert sem veldur mér áhyggjum. Ólafur S. Andrésson, prófessor í sameindalíffræði við háskóla Íslands og einn baráttumönnum fyrir umhverfismálum hér á landi hefur skrifað mjög greinargóða úttekt á þessari sk. áhættu og sér ekki ástæðu til að óttast neitt.

Þessir frasar þínir um að drottna yfir náttúrunni og beygja hana undir vald okkar finnst mér svo gildishlaðið orðalag það þarf vart að eyða í það orðum. Við þurfum að lifa í sátt við náttúruna og ég get ekki séð að Orf sé að breyta einu né neinu í því samhengi annað en að fara fram á að sá einni tegund af byggi í akur þar sem annað bygg var fyrir. Það vill svo til að þetta bygg er núna ræktað innan-dyra. Þeir vilja rækta það utandyra í akri sem nú þegar hefur bygg. Sérfræðingar segja að það sé engin hætta á að byggið dreifist eða að erfðabreytingar hafi nokkur óæskileg áhrif - en þú vilt samt ekki hlusta.

Magnús Karl Magnússon, 9.6.2009 kl. 12:05

12 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Magnús réttara væri að segja að SUMIR sérfræðingar segja að þetta hafi ekki ekki nokkur óæskileg áhrif. Sumir af þessum sumum sérfræðingum geta þar að auki ekki talist hlutlausir skv vísindalegum skilgreiningum um hagsmunatengsl og hlutleysi.

Ég er búin að tína til ýmis rök þó þau séu engan vegin tæmandi listi. Þú hins vegar heyrir þau hvorki né sérð af því að þú hengir þig á orð sumra sérfræðinga og útilokar bæði aðra sérfræðinga og önnur rök. Þú ert búinn að ákveða þig, rétt eins og ég er búin að ákveða mig. Minni skoðun verður ekki haggað - ég vil ekki láta banna starfsemi Orf en ég vil að hún sé innandyra og fái ekki útivistarleyfi, enda tel ég mjög stórar og gildar ástæður liggja þar að baki. Það er mun stærri ákvörðun að leyfa þetta utandyra en innan - og sú ákvörðun er óafturkræf.

Hér er linkur á grein sem þú gætir haft áhuga á að lesa. Þú gætir reyndar einnig kastað henni á haugana því hún fjallar um erfðabreytt matvæli. Hins vegar bendi ég á að hún er um mat sem vísindamenn hafa áður stimplað sem „öruggan“: http://www.aaemonline.org/gmopost.html

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.6.2009 kl. 12:35

13 Smámynd: Steinar Örn

Katrín:

Þú segir: "ESB gefur t.d. ekki leyfi fyrir erfðabreyttum lífverum úti í náttúrunni."

Þetta er einfaldlega rangt hjá þér, þú virðist hafa fengið rangar heimildir í þessu efni. ESB hefur veitt yfir 100 leyfi til ræktunar erfðabreyttra plantna utandyra bara á þessu ári. http://gmoinfo.jrc.ec.europa.eu/gmp_browse.aspx

Þú segir að sumir af þessum sérfæðingum séu ekki hlutlausir. Ég vil biðja þig að segja hverjir það séu og hvers vegna þeir eru ekki hlutlausir vegna hagsmunatengsla.

"Sérfræðingar sem hafa sérhæft sig í erfðabreyttri tækni eru t.d. eðli málsins skv varla hlutlausir heldur búnir að taka afstöðu fyrirfram"

Þetta er alrangt hjá þér enda enda geta vísindamenn vel unnið að erfðatækni án þess að vera fylgjandi öllum mögulegum notum þeirrar tækni. Varla eru allir menntaðir í kynjafræði óhæfir að fjalla um feminisma og jafnrétti kynjanna?

Yfirgnæfandi hluti fræðimanna á þeim sviðum (erfðafræði, plöntulífeðlisfræði, náttúrufræði) sem koma að áhættumati þessarar tilraunar hafa líst sig hlynnta henni (þeir sem hafa tjáð sig um það á annað borð). Enda hafa þeir stutt álit sín með vísindalegum rökum og vísað í birtar rannsóknir.

Persónulegar skoðanir fólks eiga auðvitað rétt á sér en það má ekki rugla þeim óaðvitandi eða vísvitandi við vísindalega sérfræðiþekkingu.

Steinar Örn, 9.6.2009 kl. 18:19

14 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Hvernig væri að þið færuð sjálfir að koma með svör við gagnrýninni sem hefur verið gerð á að hleypa erfðabreyttum lífverum út í náttúruna? Það dugar ekki að segja bara „sérfræðingar hafa sagt það“. Ekki nógu sannfærandi rök...

Varðandi hvaða vísindamenn það eru sem eru ekki hlutlausir í málinu þá þekki ég ekki nöfnin á þeim. Það hefur komið fram í fréttum að Landbúnaðarháskólinn á 12% í Orf og það er nægjanlegt til að hlutleysiskrafa er ekki uppfyllt. Það dugar ekkert að taka Gunnar Birgisson á þetta og segja að það séu engin tengsl þarna á milli... fyrir utan faðernið! Þar fyrir utan er Ísland lítið land, vísindasamfélagið lítið og yfirgnæfandi líkur á fleiri tengslum af einhverju tagi - og það er vísindamannanna að koma fram og staðsetja sig. 

Annars verð ég að viðurkenna að mér þætti það frábært ef þið gæfuð kynjafræðingum sama, skilyrðislausa kredit og þið gefið þessum fræðimönnum... :) 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.6.2009 kl. 20:38

15 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Jæja Katrín.... vona að þú hafir komist á góðan kynningarfund í dag á vegum Umhverfisstofnunar um umsókn Orf um rannsóknarleyfi.

Fræðimenn sem stóðu fyrir formlegum kynningum eða þeir fræðimenn sem stóðu upp á fundinum voru allir á einu máli. Íslenskri náttúru stendur engin ógn af þessari hugsanlegu tilraunaræktun Orf með erfðabreytt bygg. Þarna var kynnt álit meirihluta nefndar um erfðabreyttar lífverur (frá 7 af 9 nefndarmönnum). Afdráttarlaust álit - vísindaleg rök eru ekki fyrir því að erfðabreytt bygg geti fjölgað sér, víxlæxlast, eða haft önnur óæskileg áhrif í íslenskri náttúru. Að sömu niðurstöðu komst Náttúrufræðistofnun Íslands. Íslensk lög heimila þetta að fenginni umsögn sérfræðinga (nefndin um erfðabreyttar lífverur og Nátttúrfræðistofnun).

Evrópsk lög heimila þetta.

Sumir í okkar samfélagi vilja þetta ekki. Sama gildir um fóstureyðingar. Sumir vilja banna þær. En þegar slíkur skoðanaágreiningur er uppi þá verður lýðræðið og lýðræðislegar reglur að leysa slíkt á endanum.

Ég virði rétt þinn til að hafa aðra skoðun- ég mun eflaust aldrei sannfæra þig. En ef þú vilt banna slíka útiræktun þá verður þú að sannfæra löggjafarvaldið og láta breyta lögum.

PS: Ég hef ekki enn heyrt nein rök frá þér um hver sé hættan af erfðbreyttri byggræktun á Íslandi og hvaða fræðimenn setja fram þau rök.

PPS: Þér hefur orðið tíðrætt um að sérfræðingar (vísindamenn) á sviði erfðafræði eða sameindalíffræði (eða það sem þú kallar sérfræðingar í erfðabreyttri tækni - er raunar ekki til sem fræðigrein) geti vart kallast hlutlausir. Það finnst mér harla sérkennileg túlkun. Enn og aftur finnst mér þú grípa til svipaðrar röksemdarfærslu og afneitunarsinnar í loftlagsmálum. Þeir segja iðulega, það er ekkert að marka vísindamennina af því að þeir eru að vinna við vísindi, fá sín laun fyrir að"viðhalda" vísindunum og því megi ekkert mark taka á þeim.

Magnús Karl Magnússon, 9.6.2009 kl. 20:57

16 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

PPPS:

Fræðimennirnir sem ég hef vitnað í og þeir sem kynntu á fundi UST í dag eru annars vegar frá Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnun. Þeir hafa engin tengsl við Orf, hvorki fagleg né fjárhagsleg.

Ef þú vilt sjá góða fræðilega úttekt á því af hverju engin hætta sé á ferðinni þá skal ég annars vegar vísa í álit skrifað af meirihuta nenfdar um Erfðabreytt matvæli:

Sjá: www.ust.is/media/fraedsluefni/pdf-skjol/Radgjafarnefndumsogn_2009.pdf

.... og hér getur þú séð bréf sem Ólafur S. Andrésson, prófessor við Háskóla Íslands skrifaði (annað ásamt tveimur öðrum fræðimönnum við HÍ):

Sjá: apalsson.blog.is/blog/apalsson/entry/887136/

....og : apalsson.blog.is/blog/apalsson/entry/890378/

Magnús Karl Magnússon, 9.6.2009 kl. 21:13

17 Smámynd: Steinar Örn

Katrín:

Þó að stofnunin Landbúnaðarháskólinn eigi hlut í fyrirtæki er ekki hægt að dæma alla starfsmenn og fræðimenn stofnunarinnar sem hlutdræga. Fræðimenn birta rannsóknir undir eigin nafni og bera fulla ábyrgð á sínum skrifum, persónulega og fræðilega. Aftur á móti fá þér engan hagnað af því að hagræða tölum eða falsa skýrslur.

Skýrsla LBHÍ um erfðabreytt bygg má finna hér: http://www.lbhi.is/Uploads/document/Rit_LBHI/Rit-LBHI-nr-1.pdf

Ég hvet þig til að gagnrýna skýrslu LBHÍ um erfðabreytt bygg fræðilega og málefnalega, eða vísa í einhvern sem gerir það. Það ætti ekki að vera erfitt ef rannsóknin er hlutdræg.

Ég hvet þig líka til að  gagnrýna skýrslu Ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur faglega. Þar kemur fram umhverfisáhættumat.

Sama gildir um bréf Ólafs S. Andréssonar, Zophonías Jónssonar og Eiríks Steingrímssonar http://www.apalsson.blog.is/blog/apalsson/entry/890378/

Ef þeir eru hlutdrægir í sínum skrifum ætti ekki að vera mikið mál að benda á það.

Þér finnst ekki "nógu sannfærandi rök" að vísa í svo gott sem alla sérfræðinga Íslands í þessum efnum. Hvað er meira sannfærandi en að vísa í hæfustu sérfræðinga landsins sem eru ótengdir fyrirtækinu sem sækir um leyfið? Að vísa í facebook kannanir?

Þér greinilega sannfærandi rök að segja "mér finnst" og koma fram með rangfærslur um lagaumhverfið annað hvort vegna þess að þú hefur ekki kynnt þér málið eða ert visvítandi að reyna að blekkja um fyrir fólki.

Annars gef ég öllum fræðimönnum hvort sem það eru erfðafræðingar eða kynjafræðingar eða aðrir kredit fyrir sínar rannsóknir og skoðanir svo lengi sem þeir geta rökstutt þær á faglegan og fræðilegan hátt. Ég hafna þeim ekki skilyrðislaust bara vegna þess að "mér finnst" að þeir hljóti að hafa rangt fyrir sér.

 Kv.S

Steinar Örn, 10.6.2009 kl. 11:56

18 Smámynd: Egill

já .... en af því bara

andsko.

Egill, 13.6.2009 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband