Nýtt kvennaframboð?

Mig langar aðeins til að forvitnast um hvaða hug fólk ber til nýs kvennaframboðs. Við Íslendingar eigum langa sögu um slíkt. Árið 1908 var kvennalisti í bæjarstjórnarkosningum hér í Reykjavík. Bríet Bjarnhéðinsdóttir var þar á lista ásamt þrem öðrum kvenskörungum; Guðrúnu Björnsdóttur, Katrínu Magnússon og Þórunni Jónassen*. Þær hlutu glimrandi góða kosningu og hefðu komið fimmtu konunni að í bæjarstjórn ef hún bara hefði verið á lista! Árið 1922 var Ingibjörg H. Bjarnason kosin á alþingi fyrst kvenna. Það var einnig fyrir tilstilli kvennalista. Árið 1982 voru síðan tvö kvennaframboð - í sveitarstjórnarkosningum á Akureyri og í Reykjavík. Síðan er það auðvitað Kvennalistinn sjálfur sem bauð fram í alþingiskosningum 1983. Það ár fjölgaði konum á þingi úr 5% í 15%.

Þar sem nú gengur mikið á í íslenskum stjórnmálum og ljóst er að jafnrétti er hér í mörgu ábótavant, okkur öllum til skaða þá vaknar upp sú spurning hvort nú sé kominn tími á nýtt kvennaframboð. Hvað segið þið?

Setti inn nýja spurningakönnun hér hægra megin en svo er líka fínt að tjá sig í athugasemdakerfinu.

 

* Sjá nánar á heimasíðu Kvennasögusafns 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Fyrst vil ég taka fram að ég er jafnréttissinni inn að beini.

En ég er þeirrar skoðunar að það væri ekki rétt að stofna nýtt kvennaframboð. Mér finnst mun eðlilegra að hætta að ígrunda kyn fólks í pólitík, og hugsa um hæfi eingöngu. Mér hugnast t.d. ekki hugtök eins og,jákvæð mismunun, og kynjakvóti finnst mér kjánalegur.

Samfélagið okkar er í þeirri stöðu sem það er m.a. vegna þess að hæfi hefur ekki ráðið för, heldur aðrar ástæður.

Fólk er fólk og það er annaðhvort hæft í pólitík eða ekki. Kyn skiptir þarna engu máli og á einmitt alls ekki að gera það.

Þetta er mín skoðun.

Haraldur Davíðsson, 23.1.2009 kl. 22:08

2 Smámynd: Kolgrima

Mér finnst hugmyndin um kvennaframboð alveg frábær

Kolgrima, 23.1.2009 kl. 22:14

3 Smámynd: Meinhornið

Æ nei, það síðasta sem við þurfum núna eru meiri flokkadrættir þvert á almannahagsmuni.

Á skúringakonan virkilega meiri samleið með Glitnis-Birnu en skúringakallinum?

Meinhornið, 23.1.2009 kl. 23:01

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Mér líst afar vel á kvennaframboð og mun styðja það af öllum kröftum ef af verður.

Guðríður Haraldsdóttir, 23.1.2009 kl. 23:05

5 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Ég get ekki sagt nú hvort ég myndi kjósa slíkt framboð. Fer eftir málefnum væntanlega. En hugmyndin er ágæt.

En hvernig væri að stofna formannslausan flokk sem byggir stefnuna á einhverju sem mætti kalla kvenlæg gildi en væri með fólk af báðum kynjum á lista?

Jón Kristófer Arnarson, 24.1.2009 kl. 01:01

6 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæl. Tja.. nú veit ég ekki? Getur verið að það myndi ganga? Svei mér þá ef það myndi bara ekki gerast!

Ég held samt að konur ættu ekki að hópa sig svona saman. Snúum þessu aðeins við (já ég veit að karlmenn eru fleiri og allt það), en ef karlmenn stofnuðu flokk þar sem bara eru karlar? Hvað yrði þá sagt! Er það hugsjón að jafnrétti?

Ég á tvær dætur og einn son. Ég þrái það heitast að dætur mínar eigi þá framtíð að vera jafnar körlum. Eins og er eigum við töluvert í land. Ég, á meðan ég get, mun ætíð berjast fyrir því að kona sem hefur sömu hæfileika, menntun og burði og karl, verði á sömu launum og hafi sömu kjör og karlinn. ´

Mig dreymir um það að dætur mínar komi eftir 20 ár og segi;

Pabbi. Ég var í Félagsfræðitíma og við vorum að lesa frábæra eldgamla frétt frá blaði sem hér Fréttablaðið. Þar var talað um að konur væru með miklu minni laun er karlar í sambærilegum störfum. Er þetta rétt pabbi? Var þetta svona?"

Þess vegna tel ég það Katrín, að það sé ekki ráðlegt að fara í sérstakt kvennaframboð. Konur! Vinnið frekar meira inná við.

ps. Þú færð hrós fyrir að hafa opið fyrir athugasemdir!

Sveinn Hjörtur , 24.1.2009 kl. 01:36

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Má alveg hugleiða þetta.

Fer auðvitað eftir því hvað konur setja á oddinn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.1.2009 kl. 02:17

8 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Mér lýst ekkert illa á nýtt kvennaframboð. Ef konur finna sig betur borgið á þeim stöðum þá er það hið besta mál.

Ef  mig rettminnir þá kaus ég kvennaframboðið á sínum tíma.

Spurningin er aftur á móti sú hvort að vægi kvenna myndi eitthvað aukast inni á þingi í kjölfarið,því núna eru flokkar eins og Vinstri grænir og Samfylkingin með það að leiðarljósi að hafa bæði kynin inni á þingi. 

En ég svo sem skil þessa pælingu því að það er alveg ótrúlegt hvað t.d jafnréttindi kynjanna er meira í orði en á  borði.  Á meðan launamismunun er til staðar á milli kynjanna svo um munar þá er þetta mjög réttlætanleg krafa.

Brynjar Jóhannsson, 24.1.2009 kl. 03:35

9 Smámynd: Eggert J. Eiríksson

Ok Jafnrétti er nauðsynlegt og allt sem tilheyrir því.

En ef ég man rétt þá sagði hér aðflutt góð kona, fyrir mörgum árum að sér fyndist Kvennalistinn skrýtinn (man ekki nákvæmlega hvaða orðalag var notað afsakið) þar sem hvar væri jafnréttið í því að listinn væri bara fyrir konur. 

Ég tek undir með skoðanir og athugasemd Sveins Hjartar þótt ég sé barnlaus, þá á ég systurdætur og ungar frænkur sem eiga eftir að verða í framtíð Íslands hver sem hún verður.

Kv EJE

Eggert J. Eiríksson, 24.1.2009 kl. 10:44

10 Smámynd: Kolgrima

Það er hægt að kalla hlutina ýmsum nöfnum. Í síðustu kosningum, átti ekki ein einasta kona á Vesturlandi möguleika á því að komast á þing.

Enginn flokkanna heitir Karlaframboð og ekki heitir kjördæmið Karlakjördæmi. En í mínum huga voru allir flokkar karlaflokkar og kjördæmið fyrir karla.

Ég veit ekki hvort ég kysi kvennaframboð þótt mér byðist það. Það fer eftir stefnumálum og frambjóðendum flokksins. En kvennaframboð gæti virkilega hrist upp í hlutunum, minnt á að konur eru líka fólk.

Það er sennilega meiri munur á fólki af sama kyni en á milli kynja. En raddir stjórnmálaflokkanna hafa verið frekar mónótónískar og dimmar; það er virkileg þörf fyrir að bjartari rödd fái að heyrast. Rödd þeirra sem ekki eiga fulltrúa á þingi.

Kolgrima, 24.1.2009 kl. 13:50

11 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Framboð rauhærðra, Framboð freknóttra, Framboð örvhentra, Framboð sjóndapra, Framboð lágvaxinna, framboð hávaxinna, Framboð innflytjenda, Framboð ólögráða, Framboð einstæðra foreldra, Framboð aldraðra, Framboð fanga......hvar endar þetta?.....FÓLK ER FÓLK!

Haraldur Davíðsson, 24.1.2009 kl. 13:55

12 Smámynd: Þórður Vilberg Oddsson

Kvennaframboð er ekki hægt að endurtaka og væri í raun tímaskekkja. Kvennaframboð á sínum tíma var reyndar frábært og þarft framtak sem kom kvenfólkinu rækilega blað á sínum tíma. Helstu forkólfar þess reyndar enn í miklum áhrifastöðum. Núna tel ég að kvennaframboð yrði konum ekki til framdráttar heldur gæti jafnvel einangrað þær í pólitík enn meir. Þótt erfitt sé, verða þær að komast til valda á sama sviði pólitíkur og karlar og hefur reyndar tekist það. Það er ekki hægt að skrifa sömu sögu aftur með "nýju" kvennaframboði.

Þórður Vilberg Oddsson, 24.1.2009 kl. 14:00

13 Smámynd: Offari

Nei takk segi ég þótt ég sé jafnréttissinni. Kvennalisti sem útilokað aðild karlmans er ekki jafnrétti heldur órétti.  Ég er allfarið á móti framboðum sem hafa fá markið en ekki heildarmyndina að markmiði.

Offari, 24.1.2009 kl. 14:08

14 Smámynd: Kolgrima

Þú hittir naglann á höfuðuð, Þórður!

"Þótt erfitt sé, verða þær að komast til valda á sama sviði pólitíkur og karlar"

Hvernig þætti þér að karlar gætu aðeins haft áhrif á samfélag sitt "á sama sviði pólitíkur og konur - þótt erfitt væri?"

Kolgrima, 24.1.2009 kl. 14:17

15 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Þetta er einmitt ágætis vangavelta - þetta með sama sviðið... ef sviðið hentar körlum betur en konum þá er það auðvitað ekki jöfn tækifæri. Síðan er hægt að spá og spekúlera í umgjörð flokkanna sem henta konum ekki endilega heldur vel heldur eru miðuð út frá leikreglum sem voru skapaðar af körlum fyrir karla. Það er nánast ómögulegt að kollvarpa slíku kerfi. Þar að auki eru allir núverandi flokkir karllægir. Af hverju datt t.d. framsóknarmönnum frekar í hug að hringja í ungan karlmann út í bæ sem ekki hafði komið nálægt flokkastarfinu frekar en að ná í konu innan úr flokknum sem hefur lagt eitthvað af mörkum fyrir flokkinn en er þó ekki partur af flokksklíkunni???? Sama má segja um hina flokkanna - ef konur eru útilokaðar þar með ýmsum hætti og alltaf í minnihluta hvernig er þá hægt að tala um sama sviðið??? Ef leikreglurnar hugnast ekki konum eru þá bara tveir kostir í stöðunni - kyngja því og spila samt með eða koma bara ekki nálægt pólitík? Af hverju er ekki þriðji valkosturinn í stöðunni - að vera með sérstakt kvennaframboð þar sem konur geta skapað eitthvað nýtt? Alþingi verður eftir sem áður sama sviðið fyrir bæði konur og karla þegar þangað er komið þannig að það er ekki hægt að segja svo glatt að konur séu ekki á sama sviði og karlar með sérstöku framboði.

Varðand jafnréttið - þá vantar sárlega mun fleiri konur á þing. Við höfum t.d. aldrei náð svo mikið sem 40% hlutfalli kvenna á Alþingi Íslendinga. Nýtt kvennaframboð getur því jafnað þá skekkju því það er fátt sem bendir til þess að hinir flokkarnir ætli að taka sig á í þeim efnum.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 24.1.2009 kl. 15:06

16 Smámynd: Héðinn Björnsson

Landið þarf á mjög klárri efnahagslegri sýn. Ef kvennaframboð gæti komið með nýja sýn á þau ætti það séns á að komast yfir 5% múrinn en annars er hætt við að það myndi bara draga fylgi frá þeim flokkum sem í dag standa sig best við að koma konum á þing og verja hagsmuni þeirra.

Héðinn Björnsson, 24.1.2009 kl. 18:59

17 identicon

Það síðasta sem við þurfum er typpa & píku stríð.
Að vinna saman er lykilorðið í lífinu...

DoctorE (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 19:16

18 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Vinna saman að hverju DoctorE? Kjarni jafnréttisbaráttunnar hefur einmitt verið að ná því í gegn. Því miður hefur vilji karlmanna verið frekar lítill í þessa áttina (og ég geri fastlega ráð fyrir því að fólk kunni að setja orðið sumir sjálft þarna fyrir framan). Staða jafnréttismála er skelfileg hér á landi og það er afar lítill vilji til að bæta þar úr. Það get ég fullyrt eftir margra ára baráttu í þeim efnum. Kvennaframboð myndi einmitt hafa það að markmiði að auka þetta samtarf - bara ekki á forsendum karla.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 24.1.2009 kl. 19:58

19 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Ég starfaði með kvennaframboðinu hér á Ísafirði fyrir allnokkrum árum og ég gæti vel hugsað mér að styðja kvennaframboð, en það færi þó vitanlega eftir stefnuskrá og þeim einstaklingum sem færu fram fyrir flokkinn. 

Sumir telja að tímarnir séu breyttir og að slíkt framboð væri tímaskekkja, í dag hafi konur sama rétt og karlar.  Því miður er það ekki sá raunveruleiki sem ég sé í kring um mig.  Konurnar eru heima að passa og karlarnir úti að vinna. Konurnar eru undirmenn og karlarnir á sérkjörum. Enn er það þannig að konur víkja fyrir körlum bæði leynt og ljóst. Það er gegnið fram hjá hæfum konum bæði í stjórnmálaflokkum, á vinnustöðum og í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða.  Kynjaskekkjan á svo djúpar rætur að bæði kynin taka fullan þátt í því að viðhalda kerfinu sem tryggir karlmönnum forréttindi.  Við sem reynum að vekja athygli á þessu erum úthrópuð og rökkuð niður.  En það er með þetta óréttlæti eins og annað, það verður aldrei friður fyrr en jafnrétti er náð.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 24.1.2009 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 332474

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband