Handónýtt réttarkerfi

Enn eina ferðina bregst réttarkerfið varðandi kynferðisbrotamál. Það er eins og meðvirknin með kynferðisbrotamönnun sé óendanleg. Óþolandi er líka orðræðan í kringum svona brot. Hvað þýðir þessi setning: 

Fram kemur í dómi héraðsdóms að óumdeilt sé að stúlkan fór í heimsókn til eins piltanna í febrúar árið 2006 og að piltarnir höfðu allir samræði við stúlkuna þar.

Af hverju ætti þetta að vera eitthvað óumdeilt? Kemur það ofbeldinu eitthvað við að hún fór í heimsókn? Hvað ætli margir karlmenn hafi oftar en einu sinni og oftar en tvisvar verið í hóp þar sem þeir eru nokkrir en bara ein kona? Hjá flestum gerist þetta mörgum sinnum á ári - jafnvel oft á dag. Það er nefnilega alveg gjörsamlega eðlilegt og heilbrigt að kynin umgangist hvort annað. Með þessu er í raun verið að segja að konur eigi ekki að treysta karlmönnum - líta á þá alla sem óargardýr sem ekki sé öruggt að vera nálægt. Með þessu er ábyrgðin líka sett yfir á konuna - eða barnið í þessu tilviki. Mér finnst í alvörunni að karlmenn ættu að láta til sín taka í þessu máli og mótmæla dómnum og svona fjölmiðlaumfjöllun þar sem ekki er sett neitt spurningamerki við svona setningar. Það er nú einu sinni þannig að það verður ekki bæði haldið og sleppt... Karlmenn geta ekki bæði sagt við konur að við eigum að treysta þeim því þeir séu traustsins verðir - en á sama tíma gefið í skyn að það sé eitthvað athyglisvert við það að unglingsstúlka heimsæki 3 unglingspilta. Ég meina - er karlmönnum treystandi eða ekki? Svarið hlýtur að vera að meirihlutanum sé  treystandi... og þá er spurningin - hvernig höndlum við þær aðstæður þar sem meirihlutanum er treystandi en ekki öllum? Er lausnin sú að konur vantreysti öllum körlum og hætti að umgangast þá nema þær séu saman í hóp eins og gefið er í skyn í fréttinni? Fyrir mína parta segi ég nei. Kemur ekki til greina. Þetta er ekki sú veröld sem ég vil. Spurning hvort að fleiri séu sammála - eða hvort fólk haldi að það geti bæði haldið og sleppt og sagt konum að treysta öllum karlmönnum - en síðan ef eitthvað kemur upp á þá fært ábyrgðina einhvern veginn yfir á þolandann - eins og með því að segja "það er óumdeilt að hún fór til þeirra í heimsókn"? Eða er fólk orðið svona firrt að það heldur að það að þiggja heimboð sé það sama og að samþykkja kynmök? Eiga konur alltaf að segja við karla sem bjóða þeim í heimsókn: "Nei takk. Ég hef engan áhuga á að sofa hjá þér"!!! Shocking

Og að næsta punkti - af hverju er sagt að það sé óumdeilt að þeir hafi allir haft við hana samræði? Hún fór beint upp á Neyðarmóttöku á eftir og svo kærði hún þá. Það er því út í hött að segja að það sé óumdeilt að þeir hafi haft við hana samræði. Hið rétta er að það er  umdeilt - og nákvæmlega tilefni kærunnar.  

Sendi mínar hlýjustu og bestu kveðjur til stúlkunnar. Það þarf kjark til að kæra svo þú mátt vera stolt. Það er þetta fjárans "réttarkerfi" sem er meingallað og brotið.  


mbl.is Þrír unglingspiltar sýknaðir af ákæru fyrir kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Svo sammála.  Arg..

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.5.2007 kl. 16:03

2 identicon

Ertu búin að lesa dóminn sjálfan, Katrín? Þú misskilur algerlega þessa setningu og orðið "óumdeilt". Það þýðir í dómnum einungis að ekki sé orð á móti orði um það hvort þeir hafi hitt stúlkuna, hvar þeir hafi hitt hana og að enginn þrætir fyrir að hafa haft samræði við stúlkuna. Það hefur ekkert með þetta sjónarmið að gera sem þú ræðir mest um í pistlinum. 

Mér sýnist þú ákveða fyrirfram að fyrst kona kæri þá sé um nauðgun að ræða.  Kannski les ég skakkt í þetta hjá þér en finnst þér það egi að vera svo? Eiga strákar/karlmenn að búa við öfuga sönnunarbyrði? Ekki vísa í söguna eða langa sögu misréttis gegn konum, það réttlætir ekki að réttarkerfið snúi sönnunarbyrðinni við gegn einstaklingi árið 2007. Ef svar þitt er já, hvað verður þá um karlmann sem ákærir karlmann um nauðgun? Gildir þá annað en ef um konu væri að ræða?

Í öðru lagi: Telur þú það óhugsandi að kona taki sjálfviljug þátt í kynlífi með fleiri en einum karlmanni? Með öðrum orðum; er það sjálfkrafa merki um nauðung, misneytingu eða nauðgun ef fleiri einn karlmaður hefur samfarir við konu við sama tækifærið? Þetta er ekki útúrsnúningur heldur spurning, því ég hef heyrt þetta sjónarmið í fúlustu alvöru hjá feministum. 

Í þriðja lagi: Óskaðu ekki stelpunni til hamingju því það voru foreldrar hennar sem "létu" hana kæra eins og hún segir segir sjálf. 

Snapur (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 16:12

3 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Það sem er athyglisvert (gagnrýnivert) við þetta orðalag er líka hvers vegna fjölmiðlar pikka það upp til að setja sem part í fréttinni. Ef þetta er einhver standard setning í dómnum sem kemur dómnum lítið sem ekkert við þá á þessi setning ekki heima í fréttinni. Þar er hún gildishlaðin. 

Varðandi hvort að það sé óhugsandi að unglingsstúlka stundi kynlíf með 3 mönnum þá er svarið við því auðvitað nei - það er ekki óhugsandi. Hins vegar held ég að fæstar eða engar af þeim fari beint upp á Neyðarmóttöku á eftir og kæri svo nauðgun. Hlutfall þeirra sem ranglega ásaka menn um nauðgun er mjög lágt - talað er um 1 - 2%, sem er sambærilegt hlutfall og í öðrum glæpum. Réttarkerfið hér hefur ítrekað verið gagnrýnt, bæði lagalega hliðin og framkvæmdahliðin. Það að fókusa svona mikið á ofbeldisverknað er ekki í samræmi við glæpinn og afleiðingar hans. Eins og bent hefur verið á, ítrekað, í þessari umræðu er hægt að meta trúverðugleika út frá sálarástandi þolanda eftir á.

Varðandi það að vera harðorð um dóminn - þetta er það sem arfaslakt dómskerfi hefur í för með sér. Fólk hættir að treysta dómskerfinu til að ná fram réttlæti. Ég hef afskaplega litla trú á því að þeir sem hafa verið sýknaðir af ákærum um kynferðisbrot séu saklausir nema í minni hluta tilfella. Ætti einmitt að vera baráttumál karla að koma dómskerfinu í lag svo að hægt sé að treysta því að niðurstaðan verði réttlát... svo sýknudómur fái raunverulega þá merkingu í hugum fólks.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 15.5.2007 kl. 17:34

4 Smámynd: Sigurður Jökulsson

Vandamálið við þennan dóm, var að ekki var hægt að sanna að henni hafi veið nauðgað. Eins og var tekið fram fyrir ofan, þá var þeirra saga staðföst, en hennar saga var reikul á sannanlegum atriðum. Það verður að vera hægt að sanna sekt til að dæma sekt. Í þessu tilviki var það ekki hægt. Þegar nægur vafi er til staðar er ekki rétt að sakfella menn. Þannig virkar réttarkerfið. Betra að sleppa nokkrum sekum sálum, frekar en að fangelsa saklausar sálir.

Sigurður Jökulsson, 15.5.2007 kl. 18:46

5 identicon

Ertu búin að lesa dóminn sjálf? Meginreglan í sakamálum er að sakborningar njóta vafans,þ.e ef ákæruvaldið getur ekki sannað sekt þeirra þá verða þeir ekki dæmdir til refsingar.

Björgvin (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 19:08

6 identicon

Ég bið þig vinsamlegast að lesa dóminn.  Ef þú telur, að lestri hans loknum, að eðlilegt hefði verið að dæma þessa pilta, verð ég að líta á það sem stórkostlegan dómgreindarskort og vona að skoðanasystkyn þín nái aldrei þeim völdum að slíkt mat verði að lögum.

Stebbi (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 20:26

7 Smámynd: halkatla

hrikaleg komment hérna, fólk ætti að skammast sín. Þú ert rosalega klár Katrín Anna, aldrei efast um það og haltu áfram á þessari braut.Svona orðalag er bara pirrandi og asnalegt yfirhöfuð, um að gera að vekja athygli á því. Ég hef í gegnum árin farið í óteljandi svona heimsóknir þarsem tilgangurinn var að hanga ein með nokkrum strákum og drekka sig blindfull, ég var ekki alltaf eina stelpan en mjög oft. Annaðhvort var ég svo heppin að vera nógu ljót til að freista engra, eða þá að ég þekkti bara svona ótrúlega frábæra stráka þegar ég var unglingur, því svona mál bárust sjaldan í tal á okkar "drykkjusamkomum", hvað þá að það væri gengið lengra. Miðað við nútímann þá finnst mér stundum einsog ég hafi verið unglingur á viktoríutímanum. Póstmódernisminn getur verið skrítinn.

Ég hugsa líka hlýlega til stúlkunnar og ætla að biðja fyrir henni, vonandi kemst hún yfir sálræna skaðann af þessum verknaði saklausu piltanna. Ég ætla að biðja fyrir þeim líka.

halkatla, 15.5.2007 kl. 21:50

8 identicon

Kannski eigum við bara að hengja þá sem eru kærðir og sleppa dýrum réttarhöldum?  Ég efast um að þú hafir farið inná Héraðsdóm Reykjavíkur og lesið dóminn.

Krilli (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 23:47

9 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Jú ég er búin að lesa dóminn og þetta er skelfileg lesning. Komið er fram við stúlkuna eins og glæpamann og strákana eins og engla. Þeir verða missaga, missa minnið oþh án þess að minnst sé á að þeir séu ótrúverðugir eða með sitthvora söguna. Eins er litið fram hjá því að þeir höfðu nægan tíma til að bera saman bækur og koma sér saman um sögu. 

Hennar hegðun virðist alveg í samræmi við manneskju sem er í áfalli - enda er það að lenda í nauðgun líkt við að lenda í stríðsátökum eða náttúruhamförum. Áfallaröskun mjög algeng - og ekki minnst orði á allt þetta í dómnum. Af hverju er ekki talað um hvernig stúlkan hefur verið á eftir? Einkenni nauðgunar er hægt að meta eftir slíkum leiðum og mun raunhæfara heldur en að gera eins og gert er í dómnum, þ.e. að leita eftir líkamlegum áverkum - enda eru sjaldnast slíkir áverkar eftir naugðun. 

Mæli með því við ykkur strákar að þið prófið að lesa dóminn í gegn með því hugarfari að stúlkan hafi verið að segja satt... og spá í hvers konar réttarkerfi konur búa við þegar þetta er meðferðin sem þær fá þegar þær kæra einn alvarlegasta glæp sem hægt er að fremja.  

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.5.2007 kl. 01:04

10 identicon

Ég vil vekja athygli þína Katrín að það er ekki strákanna að afsanna ákæru stelpunnar heldur verður hún að sanna, með óhyggjandi hætti, að þeir hafi nauðgað henni til þess að þeir verði sakfelldir fyrir slíkt. 

Það að meta sálrænt ástand stelpunnar eftir meinta meðferð er einfaldlega ekki nóg til þess að sakfella þá.

Jón Gunnar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 01:32

11 identicon

Mér finnst ekki sanngjarnt réttarkerfi ef einhver kona kallar nauðgun og þá á strax að stinga einhverjum karlmanni í steininn. Það hafa nú komið upp nokkur mál þar sem að konur hafa verið að ljúga upp á karlmenn. Þetta eru ekkoi mörg mál en það er náttúrulega mjög slæmt þar sem það veikir mikið trúverðugleika kvenna sem reyna kæra nauðgun. Það þarf ekki nema eitt skemmt epli..........

Ég hef greinilega aðrar hugmyndir um réttlátt réttarkerfi en feministar þar sem að ég tel að það þurfi að sanna sekt ekki afsanna hana.

Þegar það er verið að saka fólk um eitthvað jafn alvarlegt og nauðgun þá er verið að slátra því félagslega. Mér finnst allt í lagi að vera varkár í slíkum málum. Sakamenn hafa líka mannréttindi eins og við hin og eru ekki sekir fyrr en það er búið að dæma þá sem slíka. Þótt eitthver sé sakaður um nauðgun þýðir það ekki að sá hinn sami missi öll mannréttindi í leiðinni. Mér er alveg sama hve alvarlegur glæpurinn er þá þurfi að sanna glæpina þannig að eignin vafi liggi á því að brot hafi verið framið.

Ef það hefði verið sagt umdeilt þá væri vafi á því að strákarnir hafi gert eitthvað eða stelpan hitt þá. Ef það væri vafi á því þá væri náttúrulega ekki hægt að dæma neinn fyrir glæp. Fólk sem trúir því ekki að það hafi maður stigið á tunglið segir það vera umdeilt, en þeir sem trúa því segja að það sé óumdeilt. Þessi setning kemur líka ofbeldiinu við að ef það væri umdeilt þá væri líka umdeilt að ofbeldi hefði átt sér stað á þessum stað á þessum tíma.

Ég hélt að það hefði feminsti samið greinina þar sem mér finnst eins og það sé verið að benda á að strákarnir gæti verið sekir og dómurinn því ekki réttur. Það er það sem ég las úr þessari setningu þegar ég sá hana í fréttinni.

Sálrænt ástand er að mínu mati ekki nóg til að sakfella einhvern. Það þarf sönnunargögn sem tenga geranda við glæpinn. Það er ekki hægt að sanna að eitthver hafi gert eitthvað út frá sálfræðimati. Það er kannski hægt að fullyrða að eitthvað hafi komið fyrir en ekki nákvæmlega hvað eða hver gerði það.

"Án þess að dómurinn vilji halda því fram að ákærðu séu hlutlægt séð trúverðugir í frásögn sinni eða að stúlkan hafi á einhverjum tímapunkti sagt vísvitandi ósatt frá er einsætt að reikull vitnisburður hennar, sem erfitt er að henda reiður á, er haldlítill gegn neitun ákærðu og nánast samhljóða frásögn þeirra um málsatvik.

Í málum sem þessum þá bendir reikull vitnisburður til þess að það sé verið að ljúga og staðfastur að það sé verið að segja satt. Mér finnst ekkert óeðlilegt að álykta svo í nauðgunarmálum þar sem þetta á við í öðrum málum, eða á að dæma öðruvísi í nauðgunarmálum og eftir öðrum lögum ?

Bjöggi (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 03:45

12 identicon

Kíkið endilega á þetta mér fannst þetta merkilegar síður

http://www.ifeminists.net/introduction/editorials/2003/0722.html

og

://www.anandaanswers.com/pages/naaFalse.html 



Bjöggi (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 03:58

13 Smámynd: Svanhvít Ljósbjörg Guðmundsdóttir

Kynferðisbrot eru í eðli sínu ólík öðrum brotum. Þar eru jafnan bara orð fórnarlambs á móti orð geranda. Oft eru engin önnur sönnunargögn því  fórnarlambið er sjaldnast barið sundur og saman þar sem líkamlegur styrkur karlmanna er oftast meiri en kvenna. Í hefðbundnum málum liggur sönnunarbyrðin hjá fórnarlambinu, þ.e. ég þarf að sanna að X braust inn hjá mér. Slík sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum gengur ekki upp, ekki ef við viljum sanngjarnt réttarkerfi.

Svanhvít Ljósbjörg Guðmundsdóttir, 16.5.2007 kl. 09:32

14 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Réttarkerfið hér er þannig uppbyggt að það er hér um bil ómögulegt að fá nauðgara og barnaníðinga sakfellda. Man ekki alveg tölfræðina en af þeim málum sem eru kærð ákveður saksóknaraembættið að ákæra allt of lágt hlutfall. Af þeim málum sem er ákært í er allt of lágt hlutfall sakfellinga. Kerfið er því þannig uppbyggt að þetta er ekki spurning um nokkra einstaklinga sem ganga lausir heldur er staðan þannig að það liggur við að það sé auðveldara að finna nál í heystakki heldur en að fá mann dæmdan fyrir kynferðisbrot. Þetta hefur víðtæk áhrif á alla karlmenn og ótrúlegt að þið skulið verja kerfið fremur en að berjast fyrir því að úr málum sé bætt. Eins og staðan er í dag er tiltölulega stór hópur af fólki sem trúir ekki á sýknudómana og það er afleitt. 

Bjöggi - skil ekki heldur af hverju karlar eru svona spenntir fyrir að benda á i-feminist síðuna. Það sem ég og i-feminist eigum sameiginlegt í okkar málflutningi varðandi kynferðisbrot er að segja að réttarkerfið sé skelfilega lélegt í þessum málaflokki. Hins vegar greiðir okkur á um leiðir. Ég vil að réttarkerfið verði bætt. I-feminist stingur upp á að konur gangi með byssur svo þær geti skotið meinta nauðgara á staðnum. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.5.2007 kl. 11:43

15 Smámynd: Tómas Guðbjörn Þorgeirsson

Veit ekki hvort kerfið sé eitthvað lélegt...það er réttað yfir mönnum sannanir færðar fyrir dómara og svo dæmt...ef sönnunargögnin eru ekki næg þá auðvitað er ekki hægt að dæma þessa aðila.  Tilfinningin kannski segir manni það að þessir aðilar eru sekir EN það þarf að færa sannanir fyrir því, ekki nóg að álykta eitthvað..þið t.d. vitið ekkert nákvæmlega hvað fór fram þarna...

Tómas Guðbjörn Þorgeirsson, 16.5.2007 kl. 14:01

16 identicon

Og hvað nú Katrín? Eru þessir drengir sekir í þínum augum? Ég vona af öllum lífs og sálarkröftum að þú teljir ekki vera svo því það er eitt af því versta sem hægt er að gera. Ég vil að fólk gerir sér grein fyrir því að almenningsálitið er hluti viðurlaga sem fólk fær fyrir refsiverðan verknað. En ég vil biðja fólk um að líta þá aðila hornauga sem aðeins er sannað og dæmt að þeir hafi framið afbrot. Annað kallast fordómar.

Jón Gunnar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 15:29

17 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Jón Gunnar. Ef að fólk á að hafa trú á réttarkerfinu þá verður réttarkerfið að standa sig og vera réttlátt. Það er ekki réttlátt að okkar dómskerfi sé engan veginn í stakk búið til að meðhöndla kynferðisbrotamál og að yfirgnæfandi meirihluti kynferðisbrotamanna þurfi aldrei að fara fyrir dóm, vera ákærðir eða sakfelldir. 

Þínir hagsmunir felast ekkert síður í því að kerfið sé réttlátt. Bæði vegna þess að kannski á einhver nákomin þér, eða þú sjálfur, að þurfa á þessu réttarkerfi að halda sem þolandi kynferðisofbeldis - eða ef þú skyldir nú verða svo óheppinn að vera ákærður saklaus... þá væri nú betra að fólk treysti sýknudómunum... og á meðan kerfið er meingallað og hefur ekki úrræði eða getu til að koma höndum yfir kynferðisbrotamenn þá er þetta óhjákvæmilegur fylgikvilli. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.5.2007 kl. 15:44

18 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps. tek undir þetta hjá þér með almenningsálitið og minni á að þolendur kynferðisofbeldis hafa oft sagt frá því að eftir ofbeldið taki ekkert skárra við - af öllu fólkinu, vinunum og fjölskyldumeðlimum sem ekki taka þau trúanlega eða gera lítið úr ofbeldinu og afleiðingum þess. Þetta er fólk sem er búið að verða fyrir alvarlegustu glæpum sem hægt er að fremja á eftir morði. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.5.2007 kl. 15:48

19 identicon

Frábær færsla Kata. -Og ömurlegar athugasemdir.

Var að spá í að sleppa því að kíkja á þær, því ég vissi hvað biði mín, en gerði það samt. Hætti ekki að hneykslast á því hversu margir drengstaular finna hjá sér þörf fyrir að verja stöðu sína sem í þessu tilfelli birtist okkur í handónýtu réttarkerfi.

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 16:48

20 identicon

Segið mér þá kláru konur, hvað fullnægir ykkar kröfum til sönnunarbyrði í kynferðisafbrotamálum?  Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það að þið viljið raunverulega snúa henni við og að sakborningar í svona málum verði sekir þar til sakleysi er sannað.

Stebbi (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 17:49

21 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Hér eru nokkur atriði sem þarf að bæta:

1. Það þarf að efla Neyðarmóttökuna aftur þannig að skýrslutaka sé í samræmi við kröfur.

2. Það þarf að breyta lögunum um kynferðisbrot þannig að áherslan sé ekki á líkamlegt ofbeldi sem fylgir stundum nauðgunum. Nauðgun er glæpur einn og sér - og honum þarf ekki að fylgja líkamlegt ofbeldi. Það er galli á löggjöfinni að láta sönnunarbyrðina snúast um mar og svoleiðis áverka þegar þeir eru oft hreinlega ekki til staðar - þrátt fyrir að nauðgun hafi átt sér stað.

3. Það þarf að bæta alla aðstöðu til skýrslutöku. Ég veit reyndar ekki hvernig málum er háttað hjá Barnahúsi. Getur vel verið að það sé góð aðstaða þar. Hjá löggunni er hún hins vegar skelfing. Ég fór á lögreglustöðina til að kæra klám árið 2005. Sat í klukkutíma með löggu sem kunni varla á lyklaborð, var rosalega seinn að pikka allt inn. þurfti svo að leiðrétta, kunni það ekki og þá vildi hann byrja upp á nýtt... Þú getur ímyndað þér hvað ég varð hissa þegar ég komst að því að konur sem fara og kæra kynferðisbrot þurfa að gefa skýrslu við þessar aðstæður - í lítilli loftlausri skrifstofu - og oft með löggu sem ekki kann að pikka inn á tölvuna. Frásögnin verður fyrir vikið sundurslitin og erfitt að koma málum frá sér þar sem ferlið er mjög ópersónulegt. Ég veit að það stendur til að bæta þetta eitthvað en ég veit ekki hversu mikið eða hvort það er komið í gagnið. Við héldum einu sinni námskeið í samstarfi við Neyðarmóttökuna fyrir lögreglumenn sem hluta af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Meðal þess sem var gert á námskeiðinu var að löggurnar tóku skýrslu af meintum þolanda. Tvö viðtölin voru framkvæmd á Stígamótum og ég held að þá hafi löggurnar séð hvað það munar miklu að vera við góðar aðstæður við skýrslutöku. Þar er heimilislegt umhverfi, þeir voru ekki með tölvu oþh. Munar öllu.

4. Meta þarf trúverðugleika út frá andlegum afleiðingum nauðgunar. Áfallaröskun og annað sem getur fylgt í kjölfar nauðgunar á að taka sem góð og gild sönnunargögn. Þýðir lítið að segja að þolandinn eigi að sanna sektina en síðan er ekki tekið mark á sönnunargögnunum.... Meikar hreinlega ekki sens.

5. Dómarar þurfa að fá fræðslu um eðli og afleiðingar kynferðisbrota til að vera í stakk búnir til að dæma í málunum.

6. Sömuleiðis þarf meiri fræðslu til allra sem koma að málum. Nauðgunarmýturnar lifa enn góðu lífi, því miður - og þeim þarf að útrýma. Þegar fólkið sem á að hjálpa þolandanum að ná fram sanngjarnri og réttlátri málsmeðferð er sjálft litað af nauðgunarmýtum þá er ekki nema von að árangurinn verði lélegur.

Þetta eru svona nokkur atriði til að byrja með. Má eflaust bæta miklu við en þetta er svona það sem ég man eftir í fljótu bragði. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.5.2007 kl. 18:04

22 identicon

Sóley mér finnst það ekki lýsa handónýtu réttarkerfi að deila á þessa setningu eða orðið óumdeilt. Mér finnst það eiginlega vera vitleysa og léleg íslenskukunnátta. Allt í lagi að fólk viti hvað það er að tala um áður en það setur svona fram.

Katrín veit greinlega ekki mikið um hvernig dómskerfið virkar ef þetta er gagnrýnin á þennan dóm. Þið feminstar ættuð að kinna ykkur lögin og réttarkerfið hérna áður en þið farið að tala um að það sé lélegt. 

Katrín miðað við það sem ég les úr þessari grein á i-feminst þá erum við(ég og i-fem)sammála um að það þurfi óhyggjandi sönnunargögn í nauðgunarmálum því annars lítur karlmaðurinn út fyrir að vera fórnarlamb. Það hjálpar ekki neinum. 

 Þegar konur eru yfirheyrðar í barnahúsi er mjög góð aðstaða. Þar er skýrslan tekin upp á myndband, fórnarlamb og sérfræðingur sem yfirheyrir fórnalambið eru ein í hlýlegu herbergi. 

Svo finnst mér að það þurfi alltaf hard evidence í svona málum. mat á andlegu ástandi er ekki hard evidence, þar sem það tengir ekki neinn ákveðin við glæpinn.  Svo finnst mér miklu betra mat við trúverðugleika hvort maður sé reikull í frásögn eða ekki. Stelpan var reikul og því ekki trúverðug.

Bjöggi (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 18:34

23 identicon

Ég er sammála mörgum af þessum punktum hjá þér Katrín. Það vekur samt athygli mína að aðeins einn punktur af þessum sex varðar dómskerfið. Ég er tilbúinn að gera fullt af hlutum á vissum sviðum og finnst mér þú koma með mjög góðar athugasemdir. Ég þvertek samt fyrir það að dæma menn seka þegar þeir hafa verið dæmdir saklausir og það brýtur gegn réttarríkishugmyndinni að snúa sönnunarbyrðinni við í dómsmálum.

Og Sóley, af hverju þarftu alltaf að vera með einhver skítköst þótt einhverjir séu ekki sammála þér? Skoðanir þínar eru enginn heilagur sannleikur. 

Jón Gunnar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 19:50

24 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

Óskar segir: Það hefði verið óréttlátt og beinlínis út í hött að dæma strákana fyrir þetta.

Ég spyr: Var Óskar á staðnum? Hann virðist vera með þetta allt á hreinu 

erlahlyns.blogspot.com, 16.5.2007 kl. 22:51

25 Smámynd: Tómas Guðbjörn Þorgeirsson

Sammála Jóni Gunnari, Sóley gerir þetta of oft, kemur með svona barnaskap og ómerkilegheit...veit ekki hvað henni gengur til en held að allir hérna á þessu spjalli láti þetta sem og vind um eyru þjóta og sjái það fyrir vitleysuna sem það er.

Tómas Guðbjörn Þorgeirsson, 16.5.2007 kl. 22:55

26 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Strákar voðalega er ykkur í nöp við Sóley.... ég bara skil þetta ekki... Ættuð að biðja hana um að bæta við listann sem ég setti hér inn og hún getur frætt ykkur um fullt af atriðum í viðbót sem þarf að bæta. Hef sagt það áður og segi eina ferðina enn. Sóley er ein ötulasta baráttukonan gegn kynbundnu ofbeldi á Íslandi í dag... 

Bjöggi - jú ég veit alveg hvernig réttarkerfið er að virka - og segi þess vegna að það sé handónýtt. Það er nefnilega ekki að virka í þessari tegund brota og þess vegna þarf að breyta kerfinu. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.5.2007 kl. 23:04

27 identicon

bjöggi, má ég spyrja hvað þú flokkar sem óyggjandi sönnunargögn í nauðgunarmálum? Marblett?

Miðað við þær málafærslur sem flestir karlar hér hafa fært er hér um bil ómögulegt að dæma sekt í nauðgunarmálum, þar sem verknaðurinn fer oftast fram við luktar dyr.

gretar (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 23:26

28 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Arngrímur það er ekkert sem bendir til að stelpan hafi verið að ljúga þessu upp á strákana. Nákvæmlega ekkert. Og ef þú lest dóminn þá sérðu að dómarar töldu það ekki heldur. Þeir töldu bara að naugðunin hefði ekki verið sönnuð. Þeir töldu ekki að hún hefði verið afsönnuð. Mér finnst andstyggilegt að sjá og heyra hvað þú vilt unglingsstelpu sem hefur orðið fyrir hópnauðgun illt. Svo furðar fólk sig á því að stelpur hvorki segi frá né kæri. Eins og einhver sem minntist á almenningsáltið sagði... 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 17.5.2007 kl. 13:15

29 identicon

Gott að fá fram þessa punkta með tillögum um breytingar, mér finnast persónulega punktar 1-3 mjög góðir. Held að fjórði punkturinn sé aðal ásteytingarsteinninn í þessari umræðu.

Óvitandi um eðli sambands nauðgana og áfallaröskunar og annarra mælanlegra andlegra eftirkasta finnst manni þessi tillaga óneitanlega hættuleg. Tökum dæmi. Bílvelta er vel þekkt afleiðing ölvunaraksturs. Varhugavert er þó að svipta alla ökuréttindum sem velta bíl sínum vegna ætlaðs ölvunaraksturs nema sterkari vísbendingar liggi fyrir (t.a.m. blóðsýni). Vitnisburður farþega um ölvun bílstjórans yrði væntanlega ekki heldur látinn nægja án frekari sönnunargagna (hitt er svo auðvitað annað mál að blóðsýnið er yfirleitt auðfengið í þessum tilvikum). 

Ég held að betur færi á því að huga að atriðum þeim sem nefnd voru í 1-3, þ.e. gera skýrslutöku sem vandaðasta og aðstæður við hana sem þægilegastar fyrir þann sem hefur orðið fórnarlamb hræðilegs glæps. Mat á andlegum afleiðingum sem gætu verið orsakaðar af nauðgun ætti að sjálfsögðu að vigta inn í sönnunarmat en þá aðeins í samræmi við næmni og sértækni slíks sambands almennt (væri áhugavert að fá að sjá tölur um það, þar sem það gæti hugsanlega eytt þeirri tortryggni sem lesa má úr athugasemdum sumra hér að ofan, eða gefið henni byr undir báða vængi).

kveðja (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 21:52

30 identicon

Arngrímur, nú gekkstu of langt.  Það er óvirðing við þessa stúlku að leggja til að hún verði kærð.  Að mínu mati hefur hún gengið í gegnum nógu mikla erfiðleika vegna þessa máls nú þegar.

Ástæðan fyrir því að ég er ekki sammála Katrínu varðandi dóminn, er sú að mér fannst framburður stúlkunnar, eins og hann er kynntur í dómsniðurstöðu, mótsafnakenndur og ekki nógu sannfærandi til að hann hæfi ákæruatriðin yfir vafa.  Í textaformi er erfitt að skynja þær tilfinningar sem búa að baki orðum hennar, en út frá rituðum framburðinum get ég ekki annað en tekið undir niðurstöðu dómara.

Stebbi (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 09:58

31 identicon

Alveg ótrúlegt hvernig þið feminista-konur talið eins og það sé staðreynd að þessari stelpu hafi verið nauðgað, ótrúlegt að þið gerið það alltaf sjálfkrafa þegar konur/stelpur kæra nauðgun. Þetta er viðbjóðslegt af ykkur og minnir á nornaveiðar. 



Geiri (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 19:54

32 identicon

Vel alhæft hjá síðasta ræðumanni. Verulega smekklegt.

Jón Gunnar Ásbjörnsson (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 13:03

33 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Þrándur... ef þú vilt að ég banni þér að kommenta hér er það mér algjörlega að meinalausu. Eyddi þessu frá þér núna en þú þarft annaðhvort að fara að læra mannasiði eða þá að ég set þig á bannlistann minn. Nenni ekki að standa í að stroka út eftir þig trekk í trekk. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 20.5.2007 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband