Smá um vændið

Góður leiðarinn hennar Steinunnar í Fréttablaðinu í dag - um vændið. Málið er nefnilega ekki eins klippt og skorið varðandi lögleiðingu/ekki lögleiðingu. Í sjálfu sér er vændi ekki orðið löglegt heldur ekki refsivert. Ef við viðurkennum vændi sem eina tegund kynferðisofbeldis þá er einmitt mjög rökrétt að afnema refsingu á seljendum... maður refsar ekki þeim sem beitt eru kynferðisofbeldi. Hins vegar er er líka jafn órökrétt að segja þá að ekki sé neinn ofbeldismaður í tengslum við verknaðinn. Þrátt fyrir að ég sé ánægð með að fólk í vændi eigi ekki lengur á hættu að enda í jailinu þá er ekki góð staða að vera með vændið í einhverju limbói þar sem enginn er sekur. Lögleiðing á vændi er ein besta gjöf sem hægt er að færa þeim sem stunda mansal. Limbóið er sennilega næst besta gjöfin. Við verðum að stíga skrefið til fullst og gera kaupin refsiverð. Svíar eru þeir einu sem hafa þorað hingað til. Finnar fóru hænuskref og það er ólöglegt að kaupa þegar viðkomandi manneskja er í mansali... Ég lít á Svía sem algjöra forystuþjóð í þessum efnum. Þeir eru núna eins og þjóðin sem fyrst veitti konum kosningarétt. Vonandi fylgja fleiri þjóðir í kjölfarið og afskaplega væri gaman ef Ísland gæti orðið land #2 í heiminum til að fara þessa leið! Smile

Meira um þetta seinna...  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 

"Við verðum að stíga skrefið til fullst og gera kaupin refsiverð." segjir Katrín Anna. Kaup á vændi eru refsiverð samk. 196. gr. l. nr 19/1940. Ef svo er ekki er ástæðulaust að banna neitt í sambandi við vændi.

Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 11:13

2 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

196. gr.

"Hver sem notfærir sér geðveiki eða aðra andlega annmarka manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans, skal sæta fangelsi allt að 6 árum."

Þetta dugar ekki. Það þarf að hafa það skýrt í lögum að kaup á vændi séu refsiverð.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 27.3.2007 kl. 11:21

3 identicon

 

Það fer eftir hvernig vændi er skilgreint. Kynferðislega misþroska menn kunna að líta á vændi sem rómantíst kvöld með ástini sinni sem hann keypti fyrir 100.000.- kr. flösku af kampavíni. Aðrir sem haldnir eru sama misþroska geta átt svipaða stund án víns með fimm ára gamalli "kærustu" sinni.

Það er reynsla mín að almennar hugmyndir kvenna um kynferðismök séu svo rækilega í andstöðu við vændi að slá megi því föstu kona sem stundi vændi sé haldin "andlegum annmarka" sem kaupandi "notfæri sér". Aldrei hef ég orðið vitni að því að karl hafi farið þess á leit við ókunna konu á almannafæri að hún hefði við sig samræði og konan orðið við því. Það má því slá föstu um konu sem yrði við slíkri umleitan væri þannig "átatt um" að hún gæti  "ekki spornað við"  umleitan karlsins  "eða skilið þýðingu hans" og karlinum bæri að ganga úr skugga um að svo væri ekki.

Kristján Sig Kristjánsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 11:48

4 identicon

Ef ég leyfi einhverjum að berja mig til óbóta með mínum vilja gegn greiðslu, er kaupandinn þá ofbeldismaður sem er að beita mig refsiverðu valdi?

Benedikt (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 11:50

5 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Kristján: Konur stunda skyndikynni, rétt eins og karlar - það er hins vegar peningagreiðslan í vændinu sem er ekki í lagi - þar er ekki fús og frjáls vilji til kynmaka heldur er keyptur aðgangur að líkama einhvers sem EKKI vill hafa kynmök við viðkomandi. 

Benedikt: Get nú ekki svarað þér út frá lagalegu sjónarmiði enda ekki lögfræðingur... en, svona út frá almennum sjónarmiðum um hvað er ofbeldi og hvað ekki... Já - þó að þú leyfir einhverjum að lemja þig þá þýðir ekki að ekkert ofbeldi eigi sér stað. Tennurnar eru jafn brotnar, varirnar jafn bólgnar og blóðið jafn rautt...

Það er þetta með frelsið, að til að vera í frjáls þá þarf að vera skýrt að fólk megi ekki afsala sér frelsinu og verða þar með ófrjálst... því það er ekki frelsi, skiluru? Það er ekkert til sem heitir frjáls þræll.

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 27.3.2007 kl. 11:57

6 identicon

Katrín! mig langar að setja upp menningarmiðstöð sem ég ætla að kalla "Zero" og langar að leita til ykkar hjá Feministafélaginu með hjálp. Í einni stofunni er kona td. Katrín Anna, hún situr við tölvu og er að skrifa feminiska vitleysu á netið. Fyrir 0,5 l af kók Zero á kr. 50.000.- fær viðskiptavinurinn aðgang og má skamma feministann fyrir vitleysuna. Fyrir tvær 0,5 l af kók Zero má hann öskra á hana að hún hafi "aldrei prófað aðra aðferð en trúboðann". Fyrir þrjár kók Zero má viðskiptavinurinn grípa með hærgi hendi í vinstri upphandlegg feministans og hrista hana. Fyrir fimm 0,5 l af kók Zero fer feministin að gráta og viðurkennir að hafa rangt fyrir sér og hún hafi raunverulega aldrei prófað annað en trúboðan og með grátstafinn viti hún bara ekki af hverju hún sé að alltaf að skrifa þessa virtleysu. Prósentur af innkomu er svo samkomulag en þetta er góð fjáröflun fyrir félagið.

Þetta er auðvitað ekki fullmótað hjá mér en þó má hafa í miðstöðinni stofur sem skamma má öryrkja fyrir leti gegn vægari greiðslu, í annari stofu er hrædd húsmóðir (fyrverandi feministi) sem er alltof sein með matinn og afsakar sig í bak og fyrir. Fyrir 0,5 l af kók Zero sest "húsbóndinn" við enda borðsins án þess að mæla orð, fyrir annan skammt af kók fer konan að gráta en "húsbóndinn" steinþegir áfram og les Moggan án þess að virða hana viðlits.

Svo er það svefnherbergið  mar! Ekki meir um þaaaaaað en sú hefur bara prófað trúboðan hvað þá að hún viti af kók Zero!

Svo eru það barsmíðaherbergin en það snýr svosem ekki að Feministafélaginu en allar tillögur eru vel þegnar.

Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 12:38

7 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Kristján minn - svona ráðgjöf er seld dýrum dómi...

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 27.3.2007 kl. 13:55

8 identicon

"Það er þetta með frelsið, að til að vera í frjáls þá þarf að vera skýrt að fólk megi ekki afsala sér frelsinu og verða þar með ófrjálst... því það er ekki frelsi, skiluru? Það er ekkert til sem heitir frjáls þræll."

 Hérna liggur steinninn grafinn hjá þér. Þú talar um frelsi en boðar forræðishyggju því fullt frelsi hlýtur óhjákvæmilega að fela í sér möguleikann á að afsala sér því frelsi. Ef maður má það ekki þá er maður ekki frjáls gjörða sinna er það? Þetta er nákvæmlega saman pælingin og stundum er sett fram í guðfræði, þegar menn segja að fyrst að guð sé almáttugur hljóti hann að geta skapað svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum. Þetta er í eðli sínu ekki þversögn (í það minnsta fyrir þá sem skilja umræðuna) því það að vera almáttugur hlýtur að fela í sér máttinn að afsala sér almættinu.

Nákvæmlega það sama gildir með frelsið. Ef maður hefur ekki möguleikann á að afsala sér frelsinu þá er maður ekki að fullu frjáls. Þess vegna er maður ekki frjáls nema að maður hafi möguleikann á að afsala sér frelsinu. Meðan maður gerir það ekki telst maður frjáls. Þeir hins vegar sem kjósa að afsala sér frelsinu gera það þá bara, enda fyllilega frjálsir til!

Ellert H. (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 14:22

9 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

En eru ekki frjálsir á eftir... það er miklu meiri forræðishyggja og þversögn fólgin í því að berjast fyrir því að fólk megi vera þrælar í nafni frelsis heldur en að segja að til að allir séu frjálsir megi ekki afsala sér frelsinu! Það er það sama með grundvallar mannréttindi - til að mannréttindi séu til staðar þá má fólk ekki afsala sér mannréttindunum. Til að frelsi sé til staðar þá má fólk ekki afsala sér frelsinu. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 27.3.2007 kl. 14:57

10 Smámynd: Gunnar Valur Gunnarsson

Þetta má hljóma barnalega en hvenær erum við að selja líkama okkar?  Ég persónulega mynd frekar vilja selja mig en vinna á frystitogara eða í annari erfiðs vinnu.  Eru útgerðarmenn frystitogara að vinna sjómönnum líkamlegt ofbeldi?  Ég held að flestir myndu segja nei við því.  

Svo afhverju er þá kaup á vændi kynferðisofbeldi?  Það vill svo einkennilega til að fólk almennt hefur mismunandi viðhorf til kynlífs.  Hjá sumum er það heilagt en hjá öðrum alls ekki.  Svo hjá þeim sem það er ekki heilagt, afhverju meiga þeir þá ekki stunda það með hverjum sem þeim listir og jafnvel þyggja greiðslu fyrir það?

Gunnar Valur Gunnarsson, 27.3.2007 kl. 15:22

11 identicon

Leið Finna finnst mér mun heppilegri í þessum efnum en Sænska leiðin.   Það eru til hamingjusamar hórur, þó þær þori ekki að koma upp á yfirborðið vegna fordæmingar frá þjóðfélaginu og þá fyrst og fremst feministum.  Þær eru a.m.k þónokkrar í Danmörku sem eru ánægðar í starfi og þéna ansi vel.  Frelsis rökin hjá þér er hægt að heimfæra á ansi marga vinnu.  Ég hef engann áhuga á að þrífa almenningsklósett, en sel aðgang að líkama mínum og fyrir borgun þríf ég klósettið gegn vilja mínum.  Er það vændi?

Vændi snýst um framboð og eftirspurn, margir karlmenn eru tilbúnir að borga fyrir drátt með laglegum kvenmanni, sumir kvenmenn sjá gróðaleið í því og græða ansi vel á því að selja kynmök.  Ég sé ekkert að því að leyfa þann iðnað, helst hafa hann löglegan svo það sé hægt að hafa eftirlit með honum og skattleggja hann eins og aðra atvinnustarfsemi.  Þetta er hálaunafólk.

Þrælahald er viðbjóður sem ber að stöðva með öllum mögulegum leiðum.  En það á að ráðast gegn þrælahaldinu beint, ef einhver iðnaður þrífst ekki án þrælahalds þá deyr hann ef þrælahaldið er stöðvað. 

Skarphéðinn (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 15:42

12 identicon

Langar aðeins að útvíkka umræðu Ellerts um afsal á frelsinu.

Að segja að eitthvað sem í eðli sínu sé hömlulaust geti sett hömlur á sjálft sig gengur ekki upp - nema að hluturinn breyti um eðli þ.e. Guð er ekki lengur Guð.
Spurningin hvort Guð geti hætt að vera Guð hefur ekkert rökfræðilegt gildi og ég held líka að flestir heimspekingar séu löngu hættir að reyna að sanna/afsanna tilvist Guðs. Kannski Guð sé bara búinn að segja starfi sínu lausu.

Hér er verið að benda á að frjáls einstaklingur sem afsalar sér frelsinu er ekki frjáls og ekki þá hægt að tala um að einstaklingurinn sé frjáls lengur. Eðli frelsis og ófrelsis skarast ekki - og þá er ég að meina frelsi og ófrelsi á einum ákveðnum hlut/aðgerð/(and all the rest). Auðvitað er hægt að vera með frelsi til að ganga á grasinu en ekki hlaupa á því.

Ef þú ert hlynntur því að vernda frelsi einstaklinga hlýtur þú að reyna að koma í veg fyrir að frelsi einstaklinga sé skert (t.d. með því að misnota sér ógæfu þeirra) en ekki skilgreina það sem val að afsala sér þessu central dogma frjálshyggjunnar. Þú getur ekki boðið upp á hvortveggja og haldið heilsteyptri hugmyndafræði sem byggir á frelsi einstaklingsins.

Þannig er í raun er verið að segja að mínu mati að það er ekki val innan frjálshyggjunnar að afsala sér frelsinu og hefur því í raun ekkert með forræðishyggju að gera. Er ekki annars hámark forræðishyggjunnar að vera ófrjáls?

gretar (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 15:58

13 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Set hér inn sama svar og um daginn - þar sem sömu málin poppa upp aftur og aftur og aftur... 

Klám, vændi og mansal... þetta er allt partur af sama pakkanum. Það er ekki hægt að berjast gegn mansali nema berjast gegn vændi líka. Mýtan um hamingjusömu hóruna er lífsseig... þrátt fyrir að fátt virðist benda til að hún sé til - eða réttara sagt, að henni takist að vera hamingjusöm til langframa. Mig minnir að sá tími sem flestar konur haldi þetta út sé 2 ár... 

Það er alveg ljóst að þær konur sem enda í vændi eru ekki þær sem fæðast með silfurskeið í munninum - og halda þeim status út lífið. Bakgrunnur þeirra sem er í vændi einkennst af mansali, kynferðisofbeldi og fíkniefnum. Kaupendur vændis eru háðir því að einhver annar hafi séð um the dirty work fyrir þá - svo þeir hafi aðganginn - hvort sem þetta dirty work sé í höndum pimpsins sem neyddi konuna út í þetta með því að svipta hana frelsi, barnaníðingsins sem beitti hana ofbeldi sem barn, nauðgarans sem virti kynfresli hennar að vettugi eða fíkniefnanna sem hún er háð... 

Ef við gefum okkur það að til sé einstaka kona sem fer út í þetta bara svona fyrir forvitnis sakir án þess að vera með neitt af ofangreindu á bakinu - og hefur raunverulega aðra valkosti í stöðunni - þá hafa rannsóknir sýnt að afleiðingar vændis eru svipaðar og afleiðingar annarrar kynferðislegrar misnotkunar. Vændi er mannskemmandi... það er borguð nauðgun. Kaupandinn kaupir sér aðgang að líkama manneskju sem langar ekki til að stunda með honum kynlíf. 

Frelsi byggir líka á því að við getum ekki afsalað okkur því... Við eigum ekki að samþykkja að manneskja geti afsalað sér réttinum að líkama sínum, hvort sem það er í klukkutíma í einu eða til frambúðar.

Ps. Og ég veit að það eru líka karlar í vændi - og þeirra staða er ekki skárri...

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 27.3.2007 kl. 15:58

14 identicon

 

Af hverju eru það bara karlmenn sem berjast fyrir vændi? Hvar eru hinar kúguðu konur sem er meinað að stunda það með gríðarlegum hagnaði ég tala ekki um gleði? Er barátta þessara karla kanske sönnun um að þeir séu kynferðislega misþroska eins og ég hef marg marg haldið fram og stend við?

Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 15:59

15 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Því er fljótsvarað - þetta eru karlmann sem eru að verja rétt sinn til að kaupa aðgang að líkömum kvenna. Hefur ekkert með jafnrétti að gera heldur þvert á móti - viðhald karlaveldisins - eins og sést glöggt á því að þeir sem berjast fyrir vændi eru nánast ósýnilegir í baráttunni fyrir jafnrétti og oft á tíðum yfirlýstir andstæðingar allra aðgerða í jafnréttisátt. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 27.3.2007 kl. 16:05

16 identicon

Svíar eru handónýtt þjóð, polital correctness eins og hann gerist verstur,

Butcer (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 16:16

17 identicon

Klám, mannsal og vændi eru EKKI partur af sama pakkanum.  Þarna eyðileggja feministar sinn málsstað.  Að setja þetta svona undir einn hatt er rugl.  Það á bara að ráðast gegn mannsali, mannsalið er ógeðslegt og á ekki að líðast, punktur.  Baráttan á að beinast gegn MANNSALI, ekki bara öllu sem fer í taugarnar á feministum. 

Þótt feministar neiti tilvist hamingjusömu hórunnar, þá er hún til.  Vændi er stór iðnaður í Danmörku, þar eru til rannsóknir sem sýna að vændiskonur eru upp til hópa ánægðar í starfi, þar er samt sem aður ráðist gegn mannsali.  Vændið hefur blómstrað í Danmörku með nýrri löggjöf í Svíþjóð og auðveldari samgöngum.

Ég pesónulega er mikill jafnréttissinni, vændi snýst ekki um jafnrétti.  Ég gæti ekki hugsað mér að kaupa kynlíf, en ég vil standa vörð um frelsi einstaklingsins, vændi ber að lögleiða, því þarna er ekkert fórnarlamb.  Mannsal er aftur á móti eitt það ógeðslegasta sem til er, og að setja það undir sama hatt og klám og vændi er hreinlega út í hött.  Ekki eyðileggja baráttuna gegn mannsali með því að nota það til að koma höggi á hluti sem fara í taugarnar á þér!

Skarphéðinn (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 16:34

18 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Skarphéðinn þú veður um í villu og svíma...

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 27.3.2007 kl. 16:44

19 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

ps. og auðvitað snýst vændi um jafnrétti - stærsti hluti vændisins eru karlar að kaupa konur... Svo snýst vændi líka um ofbeldi. Vændi er borguð nauðgun - og á ekkert skylt við frelsi. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 27.3.2007 kl. 16:46

20 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

,,political correctness eins og hann gerist verstur"

Já, þetta helvítis pólitíska réttsýni alltaf hreint!

erlahlyns.blogspot.com, 27.3.2007 kl. 17:02

21 identicon

"Því er fljótsvarað - þetta eru karlmann sem eru að verja rétt sinn til að kaupa aðgang að líkömum kvenna. Hefur ekkert með jafnrétti að gera heldur þvert á móti - viðhald karlaveldisins - eins og sést glöggt á því að þeir sem berjast fyrir vændi eru nánast ósýnilegir í baráttunni fyrir jafnrétti og oft á tíðum yfirlýstir andstæðingar allra aðgerða í jafnréttisátt. "

Það liggur við að maður verði reiður þegar maður sér svona. Ég hef engan áhuga á að kaupa vændi, þykir vændi ekki geðfellt. Það sem málið snýst um er það að það eru sumir sem vilja stunda vændi, og það er frelsissvipting að banna þeim það.
Það er reyndar einn punktur í þessu. Ég er mótfallinn flestum aðgerðum í "jafnréttisátt, það er að segja opinberum aðgerðum.

Benedikt (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 17:40

22 identicon

Ég vill með öllu móti koma í veg fyrir vændi á Íslandi. Mér finnst hinsvegar umræðan og rökin sem eru notuð til að fara sænsku leiðina ansi léleg. Mér finnst það eiginlega bara ljótt að tala um vændi sem nauðgun, ekki svo að skilja að vændi sé aldrei nauðgun því vissulega er það til líka. Þegar kona bíður blíðu sína gegn greiðslu er það vændi, en þegar kona er svipt frelsi sínu og hún misnotuð er það nauðgun. Konu sem er nauðgað á aldrei neitt val. Kona sem stundar vændi er ekki gera það ánægjunar vegna, en hún á þó eitthvað val, og því finnst mér ekki réttmætt að kalla það nauðgun.

 Mannsal af þriðja aðila er t.d alltaf nauðgun. Vændi eitt og sér er nógu ljótur iðnaður til að vekja hjá mönnum óhug. Mér finnst feministar of oft misstíga sig á því að ganga of langt í umræðum. Ef um er að ræða klám er reynt að tengja það við barnaklám og vændi alltaf tengt við nauðgun. Þetta finnst mér veikja málstað feminista. Ég er nefninlega handviss um að ef menn væru upplýstir um vændi væri það orð nógu slæmt til að vekja upp hjá þeim óhug. 

Mér finnst því að umræðan ætti að vera fræðandi en ekki snúast um að kasta nógu stórum sprengjum.

Manuel (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 17:41

23 identicon

ég tel mig vera jafnréttissinnaðann, en ég lít ekki á fólk sem kall og konu heldur einstaklinga. Um leið og það er gert er jafnrétti náð, ekki með nauðung. 

Benedikt (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 17:43

24 identicon

"ps. og auðvitað snýst vændi um jafnrétti - stærsti hluti vændisins eru karlar að kaupa konur... Svo snýst vændi líka um ofbeldi. Vændi er borguð nauðgun - og á ekkert skylt við frelsi."

Þó svo að karlar séu í meirihluta að kaupa konur, þá er þetta ekki jafnréttisbarátta.  Þetta er eðlismunur kynja.  Konur kaupa sér titrara og egg í stórum stíl, karlmenn leita til vændiskvenna.  Kynin kaupa ekki sömu hluti, það kemur jafnrétti ekkert við.  Neysla á sumum varning er kynjabundin og kemur jafnrétti ekkert við.  Kynlíf er gert að neysluvöru í nútímasamfélagi, hvort sem þér líkar það betur eða verr.  Þar finnast dæmi um mannsal, sem er viðbjóður.  En að nota þau minnihluta dæmi sem rök fyrir alsherjar banni er tóm vitleysa.

Þegar kona eða karl býður kynlíf við sig gegn greiðslu, er það ekki nauðgun.  Það er móðgun við fórnarlömb nauðganna að halda því fram.  Það eru til mörg dæmi um kvenmenn sem stunda þetta, þéna vel og eru sáttar.  Það vantar fórnarlambið, þess vegna ætti þetta ekki að vera glæpur. 

Mannsal og nauðgun eru hrottalalegir glæpir sem þarf að taka á og herða refsingar við.  En að notfæra sér ógeðfeldni þeirra glæpa til að réttlæta allsherjar bann gegn vændi og klámi finnst mér ömurlegt.

Skarphéðinn (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 20:10

25 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Skarphéðinn - sérðu ekkert athugavert við það að tala um konur sem hluti? Leggja það að jöfnu að kaupa sér titrara og að kaupa sér konu?

Úff hvað það er allt of langt í land...

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 27.3.2007 kl. 20:22

26 identicon

 

"Konur kaupa sér titrara og egg í stórum stíl, karlmenn leita til vændiskvenna".

Óskráður (Skarphéðinn), 27.3.2007 kl. 20:10

Þetta bókstaflega verður að höggva í stein.

 

Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 20:41

27 identicon

Elísabet. Býst við að þú sést að svara mér. 

Þó hlutir "hangi á sömu spýtunni" er ekki þar með sagt að þú getir notað það orð sem þér sýnist. Nú tek ég dæmi. Ofbeldi, morð, hriðjuverk, nauðgun. Allt hangir þetta á sömu spýtunni. Kalli ég mann asna er ég auðvitað að beita ofbeldi. En það er fásinna að kalla mig morðingja eða nauðgara fyrir vikið. Svona málfluttningur er gegnsær og missir trúverðugleika. Jafnvel þó hlutir "hangi á sömu spýtunni" eða "þrýfist í skugga hvers annars" er ekki hægt að segja að þetta sé einn og sami hluturinn.

Vændi er mjög alvarlegt. Af hverju ekki bara að benda á staðreyndir í stað þess að reyna að mála sem svartasta mynd af því, og verða þ.a.l ómálefnalegur. Það er munur á nauðgun og vændi, en nauðgun á sér mjög oft stað í vændinu. Rétt eins og morð eiga sér oft stað með ofbeldi en ekki er allt ofbeldi morð. Bara við það að hugsa til þess að í vændi þrífst mannsal af þriðja aðila er nógu ógeðfellt til að ég sé alfarið á móti vændi og finnist það ógeðslegt. Svo bætist á það niðurlægingin sem líka ein og sér væri nóg til að gera mig mótfallinn vændi. Svo má líka benda kvenfyrilytninguna sem felst í vændi sem hefur svo leiðandi áhrif inn í þjóðfélagið, það er líka eitt og sér nóg til að ég sé á móti vændi.

En í guðana bænum ekki missa ykkur í að henda sprengjum. Það veikir málstaðinn og í þetta skipti vill ég málstað ykkar feminista allt gott. 

manuel (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 21:42

28 identicon

Ofbeldi er alltaf ofbeldi sama undir hvaða formerkjum það er þannig að þessi punktur með "viljandi frelsissviptingu" er rakalaus.

Á sama hátt er morð alltaf morð, jafnvel þótt sumir vilji fá aðstoð við að láta taka sig af lífi. Siðferðislega á það aldrei rétt á sér að gera það.

hee (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 10:29

29 identicon

Hildur hvað áttu við? Ef kona/karl er ekki að vinna undir þriðja aðila er hún auðvitað frjáls að því leitinu til. Nema að þú sést að horfa á orðið frelsi í of víðum skilningi. Eins og feministar gera með orðinu nauðgun. 

 Þó ofbeldi sé vissulega ofbeldi þá skipta formerkin máli. Berji ég mann til dauða er ég að beita ofbeldi. Kalli ég mann asna er ég líka að beita ofbeldi. En að leggja þetta undir sama hatt því "ofbeldi sé ofbeldi" finnst mér fáránlegt. Ég bara neita að trúa því að þið leggið þetta tvennt að jöfnu þó þið haldið coolinu og segið það hér. 

manuel (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 21:00

30 identicon

Það er verið að kaupa þjónustu, ekki konu.  Konan er ekki hlutur, hún er að framkvæma þjónustu.  Fólki er borgað fyrir ýmiss þjónustustörf.  Að þrífa almennings salerni er t.d. þjónustustarf sem fáir taka að sér án greiðslu.  En greiðsla er nóg til þess að einhver framkvæmi þjónustuna.

Konan verður ekki eign neins, hún framkvæmir þjonustu i klukkutíma.  Fullnæging er niðurstaðan, sama og konur framkalla með þessum hlutum.  Svo heldur hún áfram að lifa sínu daglega lífi.  Vændi er ekki mannsal, vændi er þjónustugrein þar sem ekkert fórnarlamb er til staðar.  Mannsal er til innan greinarinnar, því ber að útrýma, ekki greininni sem slíkri.

Skarphéðinn (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 22:37

31 identicon

Hugsa bara að ég sé eitthvað vitlaus Mér finnst rök þeirra sem eru með og á móti svo fáránleg að það er orðið hæpið í huga mínum að skoðanir mínar séu rökréttar.

Mér finnst þeir sem eru mótfallnir vændi vera ómálefnalegir með því að setja allt vændi unir sama hatt og telja að allt vændi sé nauðgun. Tökum dæmi: Ég fæ tilboð frá huggulegri konu um að stunda með henn kynlíf gegn greiðslu. Ég tek tilboðinu, uppfylli skyldur mínar og þygg peninginn. Ég get ekki séð að mér hafi verið nauðgað fyrir vikið. En auðvitað myndi mér aldrei detta það í hug að þyggja greiðslu fyrir kynlíf. Að sama skapi myndi ég aldrei greiða þjónustu fyrir kynlíf. En að feministar geti sagt að í þessu dæmi hafi mér verið nauðgað er eitthvað sem ég skil ekki. 

Þeir sem eru svo fylgjandi vændi eru flestir svo þröngsýnir að manni blöskrar. Mér finnst það svo sem ekkert skrýtið, því umræðan er ekki fræðandi heldur snýst hún um að fordæma á sem harkalegastann hátt og nota öll stóru grimmilegu orðin. Maður sem spyr "hvað er svona slæmt við vændi?" fær svörin "Vændi er nauðgun". Þar með búast þeir sem eru mótfallnir vændi við því að spyrjandinn þurfi ekki lengur að vellta afstöðu sinni fyrir sér. En svarið er því miður jafn ómálefnalegt og skrif margra stuðningsmanna vændis.

Það er ekki beint eins og það skorti rökin gegn vændi. Hinsvegar er umræðan svo heit að hún nær því aldrei að vera málefnaleg. 

manuel (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 23:44

32 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Oh Manuel... ég ætlaði að láta þessa umræðu vera sem mest karla á milli - en þar sem þú ert í uppáhaldi verð ég að svara! 

Dæmið sem þú tekur - hversu lýsandi telur þú það vera fyrir stöðu þeirra sem eru í vændi? Ef þetta er þín "staðalmynd" af vændi er kannski ekki skrýtið að þér finnist ofbeldistengingin langsótt. Hvað ef dæmið liti þannig út að þú hefðir búið við langvarandi kynferðisofbeldi í æsku? Það hefði haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir þig, eins og gefur að skilja. Þegar þú ert nýorðinn fullorðinn, segjum 18 - 20 ára, eignast þú kærustu. Þú verður rosaskotinn í henni og tengist henni sterkum tilfinningaböndum. Þegar þið eruð búin að vera saman í þó nokkuð langan tíma stingur hún upp á því að þú sofir hjá annarri konu gegn greiðslu. Kannski er það einhver sem þér líkar vel við - kannski ekki. Þú vilt það ekki en þá hótar hún að fara frá þér - svo þú lætur tilleiðast. Og síðan fjölgar konunum - og þú færð greiðslu - og þér líður eins og þú sért skítugur. Þú fyllist af skömm og sektarkennd - en hey, þetta eru tilfinningar sem þú hafðir áður, enda þolandi kynferðisofbeldis. Þú leiðist jafnvel út í fíkniefnaneyslu til að deyfa tilfinningarnar... eða reynir eitthvað annað til að halda þetta út. Í hvert skipti sem þú "stundar kynlíf" gegn greiðslu fyllist þú viðbjóði á viðkomandi konu (eða karli) og hugsar um það eitt að komast í gegn um þetta. Þú hefur engan kynferðislegan áhuga á konunum - og bara engan áhuga á kynlífi yfirleitt. Kona (eða karl) sem myndi kaupa af þér "kynlíf" gerir það á þeim formerkjum að hún sé að borga þér fyrir "þjónustu". Þetta er ekki kynlíf á milli tveggja einstaklinga sem langar til að stunda kynlíf saman - heldur er annar aðilinn með pening og hinn aðilinn að stunda "kynlífið" fyrir peninga en ekki ánægju. 

Peningar breyta öllu í þessu samhengi. Annað dæmi - fyrir nokkrum árum var Oprah með þátt þar sem eiginmaðurinn vildi oftar kynlíf en konan. Hans lausn á málinu var að fá hana til að samþykkja að þiggja greiðslu fyrir. Hún var þar af leiðandi alltaf til taks þegar hann vildi - og hún stundaði með honum kynlíf þegar hana langaði ekki til. Síðan setti hann pening á borðið. Þau voru hjá Oprah því þetta gekk ekki upp - henni leið eins og hún væri skítug.

Svo geturðu líka tekið dæmið lengra og hugsað um líkamlegar afleiðingar fyrir konur sem eru með mörgum karlmönnum á hverju kvöldi. Leggöngin þola hreinlega ekki þennan "ágang" og það leiðir til alls kyns fylgikvilla, sársauka og blæðinga.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að vændi er borguð nauðgun. Forsendan fyrir því að karlar hafa aðgang að "vændiskonum" er í gegnum mansal, kynferðislegt ofbeldi annarra, fíkniefnaneyslu eða bága fjárhagsstöðu. Vændi er ekki kynlíf á milli tveggja einstaklinga sem njóta þess bæði. Að þiggja greiðslu brýtur niður sjálfsvirðingu einstaklingins og þeir einstaklingar sem leiðast út í vændi eru í yfignæfandi meirihluta brotnir einstaklingar sem njóta þess ekki að vera í vændi heldur þvert á móti. Þeir upplifa sömu afleiðingar og einstaklingar sem verða fyrir kynferðisofbeldi. Það hefur margoft komið fram hjá Stígamótum að það eru engar mannverur eins niðurbrotnar og þær sem eru (eða hafa verið) í vændi. Þess vegna er ekki afsakanlegt að kaupa vændi... ef manneskjan sem fer í vændi er ekki niðurbrotin fyrir þá verður hún það fljótt. Þess vegna er vændi ein tegund kynferðisofbeldis. Vændi er aðför að kynfrelsi einstaklingsins. 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 29.3.2007 kl. 00:12

33 identicon

Þessar alhæfingar eru fáránlegar.  Auðvitað kynnast Stígamót bara fórnarlömbum.  Konur sem stunda vændi gegn greiðslu og eru ánægðar í starfi, leita ekki til Stígamóta, eðli málsins samkvæmt.  Með lögleiðingu og rekstri uppi á yfirborðinu er hægt að aðstoða þá aðila sem í þessu lenda.  Þá er hægt að stöðva mannsal og veita aðstoð til fólks sem er í þessu af hreinni nauðung.

Það er staðreynd að í þessari atvinnugrein eru konur sem hafa það bara ansi gott, horfa á þetta sem hálaunað þjónustustarf.  Þetta er ekki kynlíf sem veitir þeim fullnægingu, heldur veita þær þjónustu og þyggja fyrir það laun.  Bara eins og sjómenn sækja sjóinn fyrir há laun.  Þetta er líkamleg vinna sem gefur vel.

Ég hef orðið vitni af því í íslensku næturlífi þegar ungar gullfallegar stúlkur eru að bjóða blíðu sína fyrir háar fjárhæðir.  Alveg augljóst að þarna er ekki um neina neyð að ræða, þarna eru stelpur sem vita að þær geta grætt háar fúlgur á því að fara heim með einhverjum fjársterkum í stað þess að enda með einhverjum fullum strák á barnum.  Þarna er ekkert fórnarlamb, nema þá eiginkonan sem heima situr.  Miðað við innihaldsleysi málflutnings feminista í þessu, þá hef ég grun um að þær séu að standa vörð um eiginkonuna, en ekki vændiskonuna. 

Skarphéðinn (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 00:29

34 identicon

Ætlaði að láta máli mínu í þessum þræði lokið. En fyrst ég er í uppáhaldi get ég ekki hætt.

Katrín ég geri mér fulla grein fyrir skaðsemi vændis og þessvegna andvígur vændi. Í dæminu sem ég tók var ég ekki að lýsa því hvernig ég held að vændi virki. Ég er alveg klár á því að sá sem selur líkama sinn verður aldrei betri maður fyrir vikið. Jafnvel í því dæmi sem ég nefndi held ég að andleg skaðsemi eigi sér stað, þó að þetta hljómi ekki alvarlega. Hinsvegar var ég að benda á að mér finnist ekki hægt að segja að "mér hafi verið nauðgað" ef ég hefði slegið til.

Því finnst mér ekki hægt að kalla allt vændi nauðgun. Að sama skapi tel ég ekki að nauðganir eigi sér aldrei stað í vændi. Allar vændiskonur sem starfa undir þriðja aðila eða með tilstuðlan þriðja aðila eru fórnarlömb nauðgunar í starfi sínu.  

 En mér finnst ekki hægt að kalla allt vændi nauðgun. Það er útgangspunkturinn. 

En Katrín! Þarna komstu samt sem áður með alvöru innlegg þar sem þú bendir á helling af atriðum sem styðja málstað feminista. Það er í raun það sem ég óska eftir. Málefnalegum svörum sem eru fræðandi. Ekki svona stuttorðum sprengjum eins og "vændi er nauðgun". Því eins mikið og ég er á móti vændi finnst mér þetta ekki málefnalegt.

Að lokum. Ég vill ekki að afstaða mín misskiljist og því endurtek ég að ég er á móti vændi og samþyggi flest rök feminista gegn vændi. 

manuel (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 23:17

35 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Now your talking! Ég var reyndar alveg með á hreinu að þú værir á móti vændinu. þú varst alveg duglegur að taka það fram! En svo er stóra spurningin - hvernig á að koma í veg fyrir og útrýma vændi?

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 29.3.2007 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Anna Guðmundsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Femínisti og fleira
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband